Fram vann Blika í fimm marka leik

Frá leik Fram og Breiðabliks í kvöld.
Frá leik Fram og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Sigurgeir

Fram vann mikilvægan sigur á Breiðabliki, 3:2, í 16. umferð Pepsi-deildarinnar í fótbolta í kvöld en Almarr Ormarsson tryggði liðinu sigur með marki úr vítaspyrnu.

Hólmbert Aron Friðjónsson kom Fram yfir á 26. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Kristni Inga Halldórssyni sem átti mjög góðan dag á hægri kantinum.

Breiðablik jafnaði aftur á móti metin í uppbótartíma í fyrri hálfleik, 1:1, en það gerði Arnar Már Björgvinsson með föstu skoti úr teignum.

Blikar komust yfir á 58. mínútu en þá skoraði danski sóknarmaðurinn Nichlas Rhode eitt skrautlegasta mark tímabilsins.

Framarar vildu meina að Rhode hefði misst boltann afturfyrir endamörk og hættu að verjast en Daninn refsaði þeim og skoraði af stuttu færi.

Aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Kristinn Ingi Halldórsson metin, 2:2, þegar hann slapp einn í gegnum vörn Blika og skoraði af öryggi framhjá Sigmari í markinu.

Fram tryggði sér svo sigurinn þegar Garðar Örn Hinriksson dæmdi vítaspyrnu á Blika á 75. mínútu. Almarr Ormarsson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 3:2, og þannig enduðu leikar.

Fram er áfram í 10. sæti Pepsi-deildarinnar með 16 stig en liðið hefði verið í fallsæti hefði það tapað gegn Breiðabliki í kvöld. Blikar eru í 8. sæti með 22 stig.

Nánari umfjöllun um leikinn verður í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inn á mbl.is seinna í kvöld.

Lið Fram: (4-3-3) Mark: Ögmundur Kristinsson. Vörn: Daði Guðmundsson, Kristján Hauksson, Hlynur Atli Magnússon, Alan Lowing. Miðja: Halldór Hermann Jónsson, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Almarr Ormarsson. Sókn: Kristinn Ingi  Halldórsson, Hólmbert Aron Friðjónsson, Sveinbjörn Jónasson.
Varamenn: Denis Cardaklija, Jón Gunnar Eysteinsson, Sam Tillen, Andri Freyr Sveinsson, Orri Gunnarsson, Jökull Steinn Ólafsson, Stefán Birgir Jóhannesson.

Lið Breiðabliks: (4-3-3) Mark: Sigmar Ingi Sigurðarson. Vörn: Gísli Páll Helgason, Sverrir Ingi Ingason, Renee Troost, Kristinn Jónsson. Miðja: Finnur Orri Margeirsson, Andri Rafn Yeoman, Olgeir Sigurgeirsson. Sókn: Arnar Már Björgvinsson, Ben Everson, Nichlas Rhode.
Varamenn: Hlynur Örn Hlöðversson, Sindri Snær Magnússon, Elfar Árni Aðalsteinsson, Haukur Baldvinsson, Rafn Andri Haraldsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Tómas Óli Garðarsson. 

Fram 3:2 Breiðablik opna loka
90. mín. 90 mínútur liðnar. Uppbótartími hafinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert