Þór/KA færðist nær titlinum með jafntefli

Þór/KA fagnar jöfnunarmarki sínu.
Þór/KA fagnar jöfnunarmarki sínu. mbl.is/Sigfús

ÍBV og Þór/KA skildu jöfn, 1:1, í 16. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld og færast norðankonur því nær sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

Kristín Erna Sigurlásdóttir kom ÍBV yfir á 36. mínútu en Katrín Ásbjörnsdóttir jafnaði metin fyrir gestina í uppbótartíma í fyrri hálfleik, 1:1.

Eyjakonur voru betri aðilinn í leiknum og fengu urmul góðra færa til að tryggja sér sigurinn. Þór/KA fékk líka sín færi en hvorugt liðið skoraði meira og lokatölur því 1:1.

Þór/KA er með 39 stig á toppi deildarinnar og nægir sigur gegn nýliðum Selfoss næstkomandi þriðjudag til að tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

Fylgst var með gangi leiksins hér á mbl.is.

ÍBV - Þór/KA 1:1 (Leikskýrsla)
(Kristín Erna Sigurlásdóttir 36. – Katrín Ásbjörnsdóttir 45.+2) 

90.+3 LEIKLOKIÐ MEÐ JAFNTEFLI, 1:1.

88. STÖNG! Shaneka Gordon kemst ein á móti Chantel í markinu en skýtur í stöngina. Algjört dauðafæri. Þór/KA-stúlkur heppnar.

82. Varamaðurinn Lillý Rut Hlynsdóttir með gott skot upp í bláhornið á marki ÍBV en Bryndís ver stórkostlega í horn.

79. Danka Podovac þrumar í vegginn úr aukaspyrnunni.

78. Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, brýtur á Vesnu Smiljkovic sem virðist vera að sleppa ein í gegn. Eyjakonur vilja rautt spjald en Arna fær gult spjald. Aukaspyrna aftur á móti á stórhættulegum stað.

72. Liðin sækja til skiptis, staðráðin í að skora sigurmarkið. Eyjakonur líklegri en Þór/KA þarf ekki mikið til að skora eins og hefur sýnt sig í sumar.

58. Sandra María með flotta takta í teig ÍBV. Lyftir boltanum yfir varnarmann ÍBV og hamrar á markið en Bryndís ver meistaralega.

46. Seinni hálfleikur er hafinn eftir aðeins 12 mínútna leikhlé. Þórður dómari líklega stressaður að ná ekki bátnum aftur heim.

45.+2 MARK! Staðan er 1:1. Gestirnir jafna. Norðankonur hafa verið öflugar eftir að þær lentu undir og uppskera mark á annarri mínútu í uppbótartíma. Katrín Ásbjörnsdóttir hamrar boltann í netið af stuttu færi eftir sofandahátt í vörn ÍBV.

42. Sandra María Jessen í dauðafæri fyrir gestina ein á móti markverði en skýtur framhjá.

40. Flott sókn hjá Þór/KA. Katrín Ásbjörnsdóttir gefur sendingu á Rebeccu Johnson í gegnum klof eins varnarmanna ÍBV. Rebecca á þrumuskot að marki en boltinn fer hárfínt framhjá stönginni vinstra megin.

36. MARK! Staðan er 1:0. Það hlaut að koma að því. Eyjakonur hafa sótt látlaust og loks skora þær. Kristín Erna Sigurlásdóttir leggur boltann fyrir sig í teignum og skorar með góðu skoti í hægra hornið.

28. Þá gerir Þór/KA skiptingu. Karen fer af velli og inná kemur Þórhildur Ólafsdóttir.

27. Anna Þórunn Guðmundsdóttir í góðu færi í teig Þórs/KA en skýtur framhjá.

25. Karen er nagli og lætur ekki flytja sig af velli á börum. Hún haltrar út af en það virðist nokkuð ljóst að hún tekur ekki frekari þátt í þessum leik.

23. Karen Nóadóttir, leikmaður Þórs/KA, liggur meidd á vellinum og verið er að hlúa að henni. Beðið er um börur fyrir Kareni. Þetta lítur ekki nægilega vel út.

15. Shaneka Gordon í algjöru dauðafæri. Kemst ein á móti Chantel í markinu en skýtur framhjá. ÍBV miklu líklegra.

12. Eyjakonur byrja miklu betur í leiknum og gestirnir að norðan komast vart yfir miðju. Chantel Jones er í ham í marki Þórs/KA.

4. Kristín Erna Sigurlásdóttir fær glæsilega sendingu í gegnum vörn Þór/KA en Chantel Jones bjargar með glæsilegu úthlaupi. Er rétt á undan Kristínu í boltann.

1. Leikurinn er hafinn. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert