Jóhann vildi rautt á Guðjón Árna

Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur, fékk rautt spjald á 57. mínútu eftir viðskipti sín við Guðjón Árna Antoníusson, leikmann FH, þegar lið þeirra mættust í kvöld í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Þeir eru fyrrverandi samherjar hjá Keflavík en Jóhann vildi lítið segja um hvað gerðist þeirra á milli eða hvaða orð voru látin fjúka.

Hann sagðist þó hefðu viljað sjá Guðjón Árna fá gult spjald líkt og hann fékk og þar með rautt en Guðjón var nokkrum sekúndum áður búinn að fá sitt fyrsta gula spjald. Jóhann Birnir stuggaði augljóslega við Guðjóni en hann féll mjög auðveldlega í grasið. Áður hafði Guðjón sýnt tilburði til að skalla Jóhann eða í það minnsta ógna honum. Hvort tveggja verðskuldaði gult spjald að mati undirritaðs en Guðjón slapp og Jóhann því eðlilega ósáttur við málalyktir.  

FH hafði 3:0-sigur en öll mörkin komu eftir að Jóhanni Birni var vikið af velli með sitt annað gula spjald.

Nánar er rætt við Jóhann í myndskeiðinu sem fylgir þessari frétt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert