Viktor Bjarki genginn í raðir Fram

Þorvaldur og Viktor Bjarki kátir við undirskriftina.
Þorvaldur og Viktor Bjarki kátir við undirskriftina. Ljósmynd/Fram

Knattspyrnumaðurinn Viktor Bjarki Arnarsson er genginn í raðir Fram frá bikarmeisturum KR en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í dag.

Þetta kemur fram á heimasíðu Framara en Viktor Bjarki var samningslaus hjá KR og hafði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagt við Morgunblaðið að meiri líkur væru á en minni að Viktor færi úr Vesturbænum.

„Hann [Viktor] er gæðaleikmaður sem mun koma með aukna reynslu inn í leikmannahópinn. Reynslu sem hefur vantað,“ segir Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, við heimasíðu félagsins.

„Ég get eiginlega ekki beðið og hlakka til að takast á við þá áskorun að spila fyrir Fram," segir Viktor Bjarki.

Viktor Bjarki er 29 ára gamall miðjumaður sem uppalinn er hjá Víkingi R. Hann var kjörinn besti leikmaður ársins 2006 þegar hann lék með uppeldisfélaginu en hann var keyptur til Lilleström í Noregi sama haust.

Eftir tvö ár í atvinnumennsku kom Viktor Bjarki aftur heim til Íslands fyrir tímabilið 2008 og gekk þá í raðir KR þar sem hann hefur spilað síðan. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu í fyrra og varð þrívegis bikarmeistari (2008, 2011 og 2012).

Í gær tilkynntu Framarar að skoski framherjinn Steven Lennon yrði áfram hjá félaginu en það hefur misst einn leikmenn því enski bakvörðurinn Sam Tillen gekk í raðir FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert