Þórður til Skagamanna

Þórður Birgisson, til vinstri, í leik með HK.
Þórður Birgisson, til vinstri, í leik með HK. mbl.is/Ómar

Þórður Birgisson, knattspyrnumaður frá Siglufirði, samdi í dag við Skagamenn til tveggja ára en þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnufélags ÍA.

Þórður, sem er 29 ára gamall, var mjög atkvæðamikill með liði KF í 2. deildinni í sumar en þar skoraði hann 18 mörk í 20 leikjum og átti stóran þátt í að koma norðanliðinu upp í 1. deildina. Hann skoraði einmitt jöfnunarmark KF gegn Hamri, 2:2, á lokamínútunum í síðustu umferðinni í haust en það stig færði liðinu annað sæti deildarinnar á markatölu.

Þórður var áður á Akranesi í þrjú ár og lék með 2. flokki ÍA, en þá spilaði hann tvo leiki með félaginu í úrvalsdeildinni. Hann lék síðan aftur í efstu deild með HK, þar sem hann var í fjögur ár, en hefur síðan leikið með KF síðustu þrjú tímabil.

Þórður er fyrsti leikmaðurinn sem Skagamenn fá til liðs  við sig fyrir komandi keppnistímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert