Veigar Páll í Stjörnuna

Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. mbl.is/Ómar

Knattspyrnumaðurinn Veigar Páll Gunnarsson er genginn til liðs við Stjörnuna á ný eftir 12 ára fjarveru og hefur samið við Garðabæjarfélagið til fjögurra ára. Þetta kemur fram á vef Silfurskeiðarinnar, stuðningsmannafélags Stjörnunnar.

Veigar, sem er 32 ára, hætti á dögunum hjá Stabæk í Noregi en hann hefur leikið erlendis undanfarin níu ár, lengst af með Stabæk.

Veigar er uppalinn í Stjörnunni og lék þar í fimm ár í meistaraflokki, til tvítugs. Þá fór hann til Strömsgodset í Noregi í eitt ár, spilaði síðan með KR 2002 og 2003 og varð meistari með liðinu bæði árin, og gekk síðan til liðs við Stabæk.

Með Stabæk varð Veigar meistari í B-deild 2005 og norskur meistari 2008, auk þess að fá  silfurverðlaun í deildinni 2007 og bikarnum 2008. Hann varð tvö ár í röð, 2007 og 2008, sá leikmaður sem átti flestar stoðsendingar í norsku úrvalsdeildinni, og fimm tímabil í röð hjá Stabæk gerði hann 10 mörk eða fleiri í deildakeppninni. Hann varð næst markahæstur í norsku úrvalsdeildinni 2006 með 18 mörk.

Veigar fór til Nancy í Frakklandi 2009 en sneri aftur til Stabæk ári síðar. Um mitt tímabil 2011 fór Veigar til Vålerenga en sneri enn á ný til Stabæk í ágúst á þessu ári.

Veigar hefur leikið 34 landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim 6 mörk. Hann lék 159 leiki fyrir Stabæk í norsku deildakeppninni og skoraði 79 mörk, þar af 66 mörk í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert