Zato-Arouna til Ólafsvíkur

Farid Abdel Zato-Arouna kemur til Víkings Ó. frá HK.
Farid Abdel Zato-Arouna kemur til Víkings Ó. frá HK. Ljósmynd/hk.is

Víkingar  frá Ólafsvík, nýliðarnir í Pepsi-deild karla í fótboltanum, hafa samið við miðjumanninn Farid Abdel Zato-Arouna frá Tógó um að leika með þeim á komandi keppnistímabili.

Zato-Arouna, sem er tvítugur miðjumaður, hefur verið hér á landi í tæp tvö ár. Hann var fyrst í röðum FH-inga en fékk ekki tækifæri með þeim í úrvalsdeildinni 2011. Hann fór þá til HK á miðju sumri og lék með Kópavogsliðinu út tímabilið í 1. deildinni, og spilaði síðan áfram með því í 2. deildinni á þessu ári.

Zato-Arouna þótti einn besti leikmaður 2. deildarinnar í ár en hann lék 17 leiki með HK í deildinni og skoraði 2 mörk. Hann er væntanlegur til Ólafsvíkur í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert