Jón Daði skrifar undir hjá Viking

Jón Daði Böðvarsson undirritar samninginn í dag.
Jón Daði Böðvarsson undirritar samninginn í dag. Ljósmynd/viking-fk.no

Jón Daði Böðvarsson, knattspyrnumaðurinn efnilegi frá Selfossi, skrifaði í dag formlega undir þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarfélagið Viking frá Stavanger. Jón Daði ákvað í síðustu viku að taka tilboði félagsins, eins og þá kom fram.

Á vef Viking er skýrt frá undirskriftinni og sagt að Jón Daði hafi gengist undir læknisskoðun, skrifað undir, snætt snöggan hádegisverð, kíkt aðeins eftir íbúð, og drifið sig síðan af stað aftur heim til Íslands. Hann muni hinsvegar koma fljótt aftur og fara með liðinu í æfingaferð til Suður-Afríku.

Þá kemur fram að Jón Daði verði í treyju númer 17 á næsta keppnistímabili.

Jón Daði er tvítugur og hefur leikið með Selfyssingum hingað til. Hann var kjörinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í ár, lék með U21-árs landsliðinu og spilaði síðan sinn fyrsta A-landsleik í nóvember þegar hann kom inn á sem varamaður gegn Andorra.

Hjá Viking hittir hann fyrir landsliðsmanninn Indriða Sigurðsson sem er fyrirliði liðsins. Viking hafnaði í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á nýliðnu keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert