Iain Williamson í stað Guðjóns Péturs

Iain Williamson í leik með Grindavík.
Iain Williamson í leik með Grindavík. mbl.is/Sigurgeir S.

Leikmannssamningi Guðjóns Péturs Lýðssonar við knattspyrnudeild Vals hefur verið rift en það kom fram í yfirlýsingu sem birtist á vef Valsmanna seinni partinn í gær. Þar kom fram að samkomulagið væri gert í bróðerni og báðir aðilar óskuðu hvor öðrum hins besta í framtíðinni.

Guðjón hefur leikið með Valsmönnum undanfarin tvö ár. Haustið 2011 var hann lánaður til Helsingborg í Svíþjóð og kom þar við sögu í sigri liðsins í deild og bikar.

Guðjón er 25 ára og lék 37 leiki með Val í efstu deild og skoraði í þeim 9 mörk. Þar af gerði hann 8 mörk sumarið 2011 þegar hann var markahæsti leikmaður Valsmanna í úrvalsdeildinni.

Valsmenn voru ekki lengi að sleikja sárin því í gærkvöldi var tilkynnt að Skotinn Iain James Williamson væri genginn í raðir Vals en hann lék með Grindavík seinni hluta síðasta sumars. Williamson er snjall miðjumaður og þar af leiðandi góður kostur til að leysa Guðjón af hólmi.

Varnarjaxlinn Barry Smith sem lék með Val fyrir nokkrum árum mun hafa mælt eindregið með Skotanum en hann þjálfar nú Dundee í Skotlandi. Valur semur við Williamson út tímabilið með möguleika á framlengingu ef vel gengur. Williamson er 25 ára gamall og hefur leikið 111 leiki í skosku úrvalsdeildinni með Dunfermline og Raith Rovers.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert