Guðjón Pétur í Breiðablik

Guðjón Pétur ásamt EinariKristjáni Jónssyni formanni knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Guðjón Pétur ásamt EinariKristjáni Jónssyni formanni knattspyrnudeildar Breiðabliks. mbl.is/blikar.is

Knattspyrnumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson er genginn í raðir Breiðabliks. Vefurinn fótbolti.net greinir frá þessu í kvöld og vitnar í Facebook-síðu framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Guðjón Pétur fékk samningi sínum rift við Valsmenn í fyrradag en hann hefur leikið með Hlíðarendaliðinu síðustu tvö keppnistímabil. Hann er uppalinn hjá Haukum og lék með liðinu í 1. deild og efstu deild áður en hann skipti yfir til Vals.

Guðjón lék einnig hálft tímabilið 2007 með Breiðabliki en fékk þá aðeins tækifæri einum leik í úrvalsdeildinni og spilaði eftir það með Stjörnunni og Álftanesi áður en hann fór aftur í Hauka. Síðustu vikur tímabilsins 2011 var Guðjón í röðum Helsingborg og fagnaði bæði sænska meistaratitlinum og bikarnum með liðinu.

Guðjón er þriðji leikmaðurinn sem Blikar fá til liðs við sig í vetur en áður höfðu þeir fengið markvörðinn Gunnleif Gunnleifsson frá FH og sóknarmanninn Ellert Hreinsson frá Stjörnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert