Viðar samdi við Fylkismenn

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Árni Sæberg

Viðar Örn Kjartansson knattspyrnumaður frá Selfossi skrifaði í kvöld undir þriggja ára samning við Fylkismenn. Tómas Þorsteinsson, leikmaður Fylkis, skýrði frá þessu á Twitter rétt í þessu.

Viðar er 22 ára gamall sóknarmaður sem hefur leikið með Selfyssingum og ÍBV en hann skoraði 7 mörk í 21 leik með Selfossi í úrvalsdeildinni í fyrra. Samtals gerði hann 10 mörk í 33 leikjum með Selfyssingum í deildinni 2010 og 2012. Áður var hann um skeið í röðum Eyjamanna og gerði tvö mörk í 17 deildaleikjum með þeim.

Viðar er fimmti leikmaðurinn sem Árbæingar fá í sínar raðir í vetur. Áður voru komnir þeir Tryggvi Guðmundsson frá ÍBV, Sverrir Garðarsson frá Haukum, Pablo Punyed frá Fjölni og Kristján Páll Jónsson frá Leikni r.

Fimm leikmenn eru farnir frá félaginu. Björgólfur Takefusa í Val, David Elebert til Shamrock Rovers á Írlandi, Emil Ásmundsson til enska liðsins Brighton, Ingimundur Níels Óskarsson í FH og Jóhann Þórhallsson í Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert