James skrifar undir hjá ÍBV

David James og Hermann Hreiðarsson, samherjar á ný.
David James og Hermann Hreiðarsson, samherjar á ný. mbl.is/Ómar

David James, fyrrum markvörður enska landsliðsins í knattspyrnu, skrifar undir samning við Eyjamenn í dag, sem leikmaður og þjálfari, en frá þessu greindi hann á Twitter rétt í þessu.

„Ég skrifa undir hjá ÍBV á Íslandi í dag. Hlutverk mitt er leikmaður/þjálfari, við hlið Hermanns. Við erum báðir mjög spenntir fyrir því sem framundan er," skrifaði James á Twitter.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það að David James verður stærsta nafnið sem nokkru sinni hefur spilað í efstu deild hér á landi. James á að baki 876 leiki í Englandi með Watford, Liverpool, Aston Villa, West Ham, Manchester City, Portsmouth, Bristol City og Bournemouth, þar af 788 deildaleiki.

Hann var landsliðsmarkvörður Englands frá 1997 til 2010 og spilaði 53 landsleiki á þeim tíma. Þar var hann í nokkurn tíma varamarkvörður fyrir David Seaman en vann sér síðan sæti sem aðalmarkvörður liðsins og spilaði bæði á EM 2004 og HM 2010.

David James er 42 ára gamall en hefur spilað linnulítið með liðum sínum alla tíð og lék 19 leiki með Bournemouth í ensku C-deildinni framan af þessu tímabili. Tvö síðustu ár varði hann mark Bristol City í B-deildinni.

James varð bikarmeistari með Portsmouth árið 2008, ásamt  Hermanni Hreiðarssyni, núverandi þjálfara ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert