Englendingur í mark Keflvíkinga

Ómar Jóhannsson markvörður Keflavíkur hefur glímt við meiðsli.
Ómar Jóhannsson markvörður Keflavíkur hefur glímt við meiðsli. mbl.is/Víkurfréttir

Keflvíkingar sömdu í dag við enska markvörðinn David Preece um að leika með þeim í sumar en þeir hafa verið í vandræðum vegna meiðsla beggja markverða sinna að undanförnu.

Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, staðfesti þetta við mbl.is.

David Preece er 36 ára gamall og var í röðum Lincoln City frá desember og til vorsins, og lék 8 leiki með liðinu í ensku E-deildinni, úrvalsdeild utandeildaliðanna. Áður lék hann með Barnsley, dönsku liðunum OB og Silkeborg, skoska liðinu Aberdeen og þar á undan með D-deildarliðinu Darlington, en Preece er annars uppalinn hjá Sunderland og var þar í aðalliðshópi til að byrja með á ferlinum.

Ómar Jóhannsson aðalmarkvörður Keflvíkinga hefur verið frá keppni síðustu vikurnar vegna meiðsla en á að vera tilbúinn í slaginn fyrir fyrsta leik þeirra sem er  gegn FH á sunnudaginn.

Árni Freyr Ásgeirsson hefur leikið flesta leiki Keflavíkurliðsins í vetur en hann varð fyrir því óláni á dögunum að slíta krossband í hné og verður ekkert með liðinu á komandi keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert