Stórsigur meistaranna í Ólafsvík

Freyr Bjarnason skorar hér fyrir FH strax á 5. mínútu. …
Freyr Bjarnason skorar hér fyrir FH strax á 5. mínútu. Boltinn þenur netmöskvana í vinstra horninu. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Íslandsmeistarar FH unnu stórsigur á Víkingi í Ólafsvík í dag, 4:0, í 7. umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu. FH komst þar með upp fyrir Val í 2. sæti deildarinnar og er með 16 stig. Víkingar eru enn með aðeins eitt stig á botninum.

FH fékk algjöra draumabyrjun þegar Freyr Bjarnason skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir hornspyrnu Ólafs Páls Snorrasonar strax á 5. mínútu. Víkingar áttu svo í fullu tré við FH um stund en lentu 2:0 undir þegar Farid Zato spyrnti óvart boltanum í eigið mark á 35. mínútu, eftir skot Björns Daníels Sverrissonar.

FH-ingar skoruðu aftur eftir hornspyrnu snemma í seinni hálfleik þegar Guðmann Þórisson skallaði inn fyrir línuna eftir hornspyrnu Sams Tillens. Atli Viðar Björnsson innsiglaði svo góðan 4:0 sigur með skoti af stuttu af færi eftir spyrnu Ólafs Páls.

Víkingar áttu heilt yfir afar erfitt uppdráttar gegn meisturunum í dag, jafnvel þó að sóknarmenn gestanna sýndu engin sparitilþrif. Þeir náðu sínum bestu sóknum seint í leiknum og meðal annars komst Brynjar Kristmundsson einn gegn Daða Lárussyni markverði en Daði varði glæsilega.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl birtast á síðunni síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í 8 síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Víkingur Ó.: (5-3-2) Mark: Einar Hjörleifsson. Vörn: Alfreð Már Hjaltalín, Damir Muminovic, Kiko Insa, Tomasz Luba, Brynjar Kristmundsson. Miðja: Björn Pálsson, Farid Zato, Eldar Masic. Sókn: Arnar Már Björgvinsson, Guðmundur Magnússon.
Varamenn: Kaspars Ikstens, Kristinn Magnús Pétursson, Steinar Már Ragnarsson, Anton Jónas Illugason, Guðmundur Steinn Hafsteinsson, Fannar Hilmarsson, Vignir Snær Stefánsson.

FH: (4-3-3) Mark: Daði Lárusson. Vörn: Guðjón Árni Antoníusson, Guðmann Þórisson, Freyr Bjarnason, Samuel Tillen. Miðja: Dominic Furness, Björn Daníel Sverrisson, Brynjar Ásgeir Guðmundsson. Sókn: Ólafur Páll Snorrason, Atli Viðar Björnsson, Atli Guðnason.
Varamenn: Kristján Pétur Þórarinsson, Ingimundur Níels Óskarsson, Pétur Viðarsson, Emil Pálsson, Kristján Gauti Emilsson, Albert Brynjar Ingason, Jón Ragnar Jónsson.

Víkingur Ó. 0:4 FH opna loka
90. mín. Farid Zato (Víkingur Ó.) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert