Framarar komnir í bikarúrslit

Almarr Ormarsson og Sverrir Ingi Ingason í baráttu um boltann …
Almarr Ormarsson og Sverrir Ingi Ingason í baráttu um boltann á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Fram er komið í bikarúrslit eftir sigur á Breiðablik 2:1 í dag. Framarar mæta Stjörnunni í úrslitaleik.

Framarar voru mun betri í fyrri hálfleik og gestirnir frá Kópavogi áttu lítinn möguleika. Það var einhver Evrópuþreyta í Breiðablik en þeir spiluðu í Kasakstan á fimmtudag.

Það þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Kristinn Ingi Halldórsson gerði það eftir níu mínutu. Mark sem Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var brjálaður yfir. Vildi fá aukaspyrnu þegar Árni Vilhjálmsson datt á miðjum vellinum. Almarr ormarsson gerði vel, hélt áfram, sendi á Hólmbert Aron sem skaut, Gunnleifur varði en Kristinn Ingi fylgdi vel á eftir og skoraði.

Almarr var frábær í fyrri hálfleik og sótti vítaspyrnu aleinn og yfirgefinn. Hljóp þá á eftir vonlausum bolta, Sverrir var kærulaus og tapaði návígi, lenti á eftir og braut klaufalega af sér. Hólmbert skoraði örugglega úr spyrnunni.

Ólafur gerði tvær breytingar í hálfleik og gestirnir voru mun beittari í síðari hálfleik. Fengu urmul af færum en hittu fyrir Ögmund Kristinsson í banastuði sem varði allt sem á markið kom.

En stíflan brást á 71. mínútu þegar Árni Vilhjálmsson skoraði. Hann stóð af sér tæklingar og smurði boltanum framhjá Ögmundi. Óverjandi.

Þrátt fyrir nokkrar góðar tilraunir tókst Breiðablik ekki að jafna og Framarar fögnuðu ógurlega í leikslok enda komnir í bikarúrslit. Hafa þar tapað fjórum síðustu úrslitaleikjum.

Lið Fram:  Ögmundur Kristinsson, Alan Lowing, Jordan Halsman, Kristinn Ingi Halldórsson,  Almarr Ormarsson, Viktor Bjarki Arnarsson, Samuel Hewson, Hólmbert Aron Friðjónsson,  Orri Gunnarsson, Ólafur Örn Bjarnason, Jon André Röyrane,

Varamenn: Denis Cardaklija, Halldór Hermann Jónsson, Daði Guðmundsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Haukur Baldvinsson, Aron Bjarnason, Benedikt Októ Bjarnason.

Lið Breiðabliks: Gunnleifur Gunnleifsson, Finnur Orri Margeirsson, Renee Troost, Elfar Árni Aðalsteinsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Sverrir Ingi Ingason, Viggó Kristjánsson,  Kristinn Jónsson,  Ellert Hreinsson, Árni Vilhjálmsson, Elvar Páll Sigurðsson

Varamenn: Arnór Bjarki Hafsteinsson, Gísli Páll Helgason, Þórður Steinar Hreiðarsson, Olgeir Sigurgeirsson, Jökull Elísabetarson, Nichlas Rohde, Andri Rafn Yeoman

Fram 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu Spennan er mikil.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert