Ríkharður: Ótrúlegt að línuvörðurinn hafi ekki séð þetta

„Að mínu mati voru það þrjár stórar ákvarðanir þeirra svartklæddu sem gerðu það að verkum að staðan var 2:0 í hálfleik,“ sagði Ríkharður Daðason þjálfari Fram eftir 4:0-tapið gegn Val í Pepsideildinni í kvöld.

Ríkharður var ósáttur við að Valur skyldi fá vítaspyrnu eftir 20 mínútna leik þar sem boltinn var talinn hafa farið í hönd Halldórs Hermanns Jónssonar, á meðan að Fram fékk enga vítaspyrnu skömmu síðar þegar boltinn virtist fara í hönd Daniels Racchi.

„Ég sá fyrra atvikið ekki nægilega vel en boltanum var sparkað af mjög stuttu færi. En ef að það er víti þá er algjörlega morgunljóst að þegar boltinn skoppaði af grasinu upp í höndina á leikmanni sem stóð aleinn þá hlýtur það að vera víti. Ég sá það af hliðarlínunni og línuvörðurinn var töluvert nær. Það er með ólíkindum að hann hafi ekki séð það,“ sagði Ríkharður sem taldi að einnig hefði verið brotið á Framara í aðdraganda annars marks Vals.

Nánar er rætt við Ríkharð í meðfylgjandi myndskeiði.

Ríkharður var einnig óánægður með þriðja markið sem Valur skoraði og sagði það hafa verið of einfalt mark hjá gestunum. Fram fékk einnig á sig fjögur mörk í síðasta heimaleik í deildinni, gegn Víkingi Ó., og þrjú mörk á sig gegn Fylki í Árbænum.

„Mér fannst þeir leikir reyndar allt öðru vísi. Það var ekki eins og Valur væri vaðandi í færum í þessum leik. Við vorum ekki að gefa neitt rosalega mörg færi á okkur og vorum í raun betri en við höfum verið varnarlega, þó lokaúrslitin gefi það ekki til kynna,“ sagði Ríkharður og bætti við að liðið þyrfti 2-3 sigra í viðbót til að tryggja sæti sitt í deildinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert