Elfar Árni útskrifaður af sjúkrahúsi

Verið að huga að Elfari Árna á Kópavogsvelli í gærkvöldi. …
Verið að huga að Elfari Árna á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Hann hefur nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er kominn heim. Kristinn Ingvarsson

„Elfar Árni var útskrifaður af sjúkrahúsi í morgun eftir að verið skoðaður og fengið morgunmat. Hann er bærilega brattur en verður að taka því rólega næstu tíu daga,“ sagði Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, við mbl.is fyrir stundu spurð um líðan Elfars Árna Aðalsteinssonar, leikmanns Breiðabliks. Hann fékk þungt höfuðhögg á 4. mínútu viðureignar Breiðabliks og KR í Pepsi-deildinni á Kópavogsvelli í gærkvöldi.

„Rannsóknir í gærkvöldi komu vel út en það var ákveðið að Elfar yrði inni á sjúkrahúsi í nótt til öryggis,“ sagði Borghildur ennfremur. „Hann verður ekkert undir sérstöku eftirliti lækna en hefur verið ráðlagt að taka því rólega næstu tíu daga. Nú sem stendur er hann með talsverðan höfuðverk,“ sagði Borghildur.

Elfar Árni fékk þungt högg á fjórðu mínútu leiksins eftir að hafa farið upp í skallaeinvígi þar sem höfuð hans og eins leikmanns KR rákust saman. Á niðurleiðinni rakst Elvar Árni utan í annan leikmann KR. Elfar Árni rotaðist við þessi högg og var hætt kominn á leikvellinum þegar aðstoð barst.

Elfar Árni gekkst undir rannsókn á sjúkrahúsi í gærkvöldi og þá kom í ljós að ekki hafði blætt inn á heilann.

Leiknum var frestað eftir atvikið og mun Knattspyrnusamband Íslands ákveða nýjan leikdag.

Elfar Árni Aðalsteinsson t.h. í leik með Breiðabliki.
Elfar Árni Aðalsteinsson t.h. í leik með Breiðabliki. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert