„Risatækifæri sem ég fæ“

Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Aðdragandinn var mjög stuttur og það hefur ekki gefist mikill tími til að liggja yfir þessu. Fyrir mér var þetta engin spurning. Þetta er risatækifæri sem ég fæ og ég er bara mjög stoltur að Breiðablik muni treysta mér fyrir þessu,“ sagði Guðmundur Benediktsson við mbl.is en hann mun taka við þjálfun karlaliðs Breiðabliks í byrjun júní þegar Ólafur Kristjánsson hverfur á braut til nýrra verka.

Ólafur mun taka við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Nordjælland en Guðmundur, sem hefur verið aðstoðarmaður Ólafs með Blikaliðið undanfarin ár, tekur við starfi Ólafs og hans aðstoðarmaður verður þingmaðurinn Willum Þór Þórsson.

„Ég hlakka mikið til og eins að fá að klárar þessar vikur með Óla. Hann hefur unnið frábært starf með Breiðablik. Ég mun halda áfram að byggja ofan á það sem Óli hefur gert síðustu 7-8 árin. Auðvitað koma alltaf einhverjar breytingar inn með nýjum mönnum en ég mun gera þetta á svipaðan hátt og hefur gert undanfarin ár,“ sagði Guðmundur við mbl.is.

Var þér falið að velja þér aðstoðarmann?

„Já það var í raun bara þannig. Willum var sá maður sem mér datt fyrst hug þegar ég fékk það verkefni að finna aðstoðarmann. Ég er gríðarlega ánægður að Willum hafi tekið vel í þetta. Hann er með gríðarlega reynslu og ég vann samfleytt með honum í einhver sjö tímabil og þekki því vel til hans starfa. Willum er maður sem hægt er að treysta til góðra verka og ég held að það sé mikill fengur fyrir Breiðablik að fá hann til starfa. Ég er afar ánægður að fá tækifæri til að vinna með honum á nýjan leik. Willum er mikill sigurvegari og sættir sig ekki við neitt annað en að vinna hlutina og það vel. Við saman mununum leggja okkur alla fram að Breiðabliki gangi vel,“ sagði Guðmundur.

„Við Blikar erum í fínum gír og við bíðum spenntir eins og stuðningsmenn, fjölmiðlamenn og fólkið í landinu að mótið fari af stað. Nú bíðum við bara eftir því að vellirnir fari að vakna til lífsins. “

Guðmundur segist eiga eftir að ræða við vinnuveitendur sína á Stöð 2 um sín mál. „Þetta bar svo brátt að svo mér hefur ekki gefist tími til að ræða þetta. Ég mun hitta mína menn á eftir og fara yfir málin,“ sagði Guðmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert