Verð vonandi meistari með FH

Kassim Doumbia.
Kassim Doumbia. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Kassim Doumbia, Malímaðurinn sem FH-ingar sömdu við í dag til tveggja ára, segist mjög spenntur fyrir því að spila með FH í sumar og hann vonast til að verða Íslandsmeistari með liðinu.

„Ég get spilað bæði sem miðvörður og á miðjunni. Umboðsmaðurinn hafði samband við mig fyrir nokkrum vikum og spurði hvort ég væri tilbúinn að spila á Íslandi og ég ákvað að slá til. Mér leist strax vel á FH og ég vissi til þess að það stóð sig vel í Evrópukeppninni í fyrra og spilaði meðal annars á móti Genk frá Belgíu. FH spilar í Evrópudeildinni í sumar og það verður gaman að fá að spreyta sig á þeim vettvangi,“ sagði Doumbia í samtali við mbl.is í dag.

„Ég vissi þegar ég kom að veðrið væri ekkert sérstakt á Íslandi en mér sýnist að það sé að lagast og ég er bara spenntur fyrir tímabilinu. Mér líst vel á liðið á leikmennina og vona að ég verði meistari með liðinu. Mér finnst vera fín gæði í leikmannahópnum og liðið í svipuðum gæðaflokki og maður sér til liða í Evrópudeildinni,“ sagði Malímaðurinn við mbl.is.

Doumba er fjórði leikmaðurinn sem FH-ingar fá til liðs við sig en hinir þrír eru markvörðurinn Kristján Finnbogason, Sean Reynolds og Sam Hewson. Einnig hafa fjórir ungir leikmenn skrifað undir sinn fyrsta samning við FH en það eru þeir Ásbjörn Ingvarsson, Emil Stefánsson, Ási Þórhallsson og Steinar Aron Magnússon.

Ásamt því að skrifa undir tveggja ára samning við Doumbia tilkynntu FH-ingar að þeir hafa endurnýjan samstarfsamning sinn við Actavis. Þetta er 14. árið í röð sem Actavis er aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert