Garðar: Gat ekki byrjað betur

Garðar Jóhannsson í fyrri leik Stjörnunnar gegn Bangor City.
Garðar Jóhannsson í fyrri leik Stjörnunnar gegn Bangor City. mbl.is/Eggert

Garðar Jóhannsson, framherjinn stóri og stæðilegi í liði Stjörnunnar var sáttur með gang mála þegar mbl.is heyrði í honum eftir 4:0 útisigur Stjörnunnar á welska liðinu Bangor City í 1. umferð Evrópudeildar UEFA.

Stjörnumenn, sem hafa verið að spila feikilega vel í sumar áttu ekki í vandræðum með þá welsku en Garðari fannst leikurinn svipa til fyrri leiks liðanna, sem einnig fór 4:0.

„Þetta var bara svipað og síðasti leikur hjá okkur. Þeir voru sprungnir eftir fimmtíu/sextíu mínútur og þá keyrðum við bara yfir þá. Við erum með miklu betra lið en þeir,“ sagði Garðar og en keppnistímabilið hjá Bangor City er ekki farið af stað það virðist hafa komið sér vel fyrir annars öflugt Stjörnulið.

Veigar Páll Gunnarsson hóf leikinn á bekknum og Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar var í þeirri þægilegu stöðu að geta hvílt hann fyrir stórleik Stjörnunnar og FH í Pepsi-deildinni á sunnudag, en Veigar kom inn fyrir Ólaf Karl Finsen í hálfleik.

„Það er aftur leikurinn á sunnudaginn og fínt að geta hvílt nokkra leikmenn, þannig að það var flott,“

Leikirnir gegn Bangor City voru þeir fyrstu sem Stjarnan spilar í Evrópukeppni og því ljóst að frumraun Stjörnunnar hefði ekki getað verið betri eftir samanlagðan 8:0 sigur á welska liðinu.

„Já, þetta gat ekki byrjað betur en þetta. Hún er bara mjög flott, við erum komnir áfram og það er bara frábært,“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert