Grindavík úr fallsæti - sigur hjá KV

Leikmenn KV fagna fyrsta marki sínu gegn Víkingi Ó í …
Leikmenn KV fagna fyrsta marki sínu gegn Víkingi Ó í kvöld sem Kristófer Eggertsson skoraði. mbl.is/Ómar

Grindavík og KV nældu í þrjú stig í kvöld þegar síðustu tveir leikir kvöldsins í fyrstu deild karla fóru fram í tíundu umferðinni.

Grindvíkingar komust upp úr fallsæti með öruggum sigri á Tindastól í botnslag kvöldsins. Sauðkrækingar komust þó yfir með marki Marks Magee og staðan 1:0 fyrir Stólunum í hálfleik.

Grindvíkingar mættu hins vegar dýrvitlausir til leiks eftir hlé og skoruðu fimm mörk. Þar voru á ferðinni Magnús Björgvinsson, Scott Ramsay, Tomislav Misura og Juraj Grizelj, en eitt markið var sjálfsmark. Óli Baldur Bjarnason fékk rautt spjald undir lokin en það kom ekki að sök, lokatölur 5:1 og Grindvíkingar komust úr fallsæti og upp í níunda sætið með 11 stig, en Tindastóll er enn á botninum með 3 stig.

Frábær byrjun KV

KV byrjaði frábærlega gegn Víkingi frá Ólafsvík í kvöld og eftir 14 mínútur var staðan orðin 3:0, Vesturbæjarliðinu í hag. Kristófer Eggertsson skoraði tvívegis og Garðar Ingi Leifsson eitt og þannig var staðan í leikhléi.

Ólsarar bitu frá sér í síðari hálfleik. Eyþór Helgi Birgisson minnkaði muninn úr vítaspyrnu þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir og var aftur á ferðinni skömmu fyrir leikslok. Það kom hins vegar of seint þrátt fyrir pressu Víkinga í uppbótartíma, lokatölur 3:2. KV er nú í áttunda sætinu með 13 stig en Ólsarar eru í fimmta sæti með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert