Atli Viðar náði Hemma Gunn

Atli Viðar Björnsson.
Atli Viðar Björnsson. mbl.is/Eggert

Atli Viðar Björnsson, sóknarmaðurinn reyndi í liði FH, komst í dag upp í fjórða til fimmta sætið yfir markahæstu leikmenn efstu deildar í knattspyrnu hér á landi frá upphafi.

Atli skoraði fyrra mark FH þegar liðið gerði 2:2 jafntefli við Stjörnuna í toppslagnum í Garðabæ í dag. Það var hans 95. mark í deildinni en hann hefur skorað þau öll fyrir Hafnarfjarðarliðið.

Hermann Gunnarsson heitinn skoraði 95 mörk fyrir Val og Akureyri á sínum tíma en þeir Atli deila nú 4.-5. sætinu. Þeir einu sem hafa skorað fleiri mörk í deildinni eru Tryggvi Guðmundsson, sem gerði 131 mark fyrir ÍBV, KR, FH og Fylki, Ingi Björn Albertsson, sem skoraði 126 mörk fyrir Val og FH og Guðmundur Steinsson sem skoraði 101 mark fyrir Fram og Víking.

Atli fór með markinu framúr Matthíasi Hallgrímssyni sem skoraði 94 mörk fyrir ÍA og Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert