„Ætlum að gera þeim lífið leitt“

Rúnar Kristinsson þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson þjálfari KR. mbl.is/Eggert

„Flestir minna leikmanna eru klárir í slaginn annað kvöld. Óskar Örn Hauksson hefur þó verið tæpur og svo hafa Guðmundur Reynir Gunnarsson og Gunnar Þór Gunnarsson verið meiddir, en við erum að tjasla mönnum saman og við eigum eftir að taka stöðuna betur. Að öðru leyti eru flestir heilir,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, þegar mbl.is ræddi við hann í dag fyrir leik KR og Celtic í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, en fyrri leikur liðanna verður á KR-velli annað kvöld.

Rúnar segir undirbúning KR fyrir leikinn ekki vera neitt öðruvísi en fyrir aðra leiki liðsins. „Þetta er bara enn einn leikurinn, þó að verkefnið sé vissulega skemmtilegt. Auðvitað þurfum við að undirbúa leikmennina aðeins meira til að þekkja andstæðingana sem best. Við höfum gluggað í hvernig þeir spila, hvaða týpur leikmennirnir eru og þar fram eftir götunum, því við þekkjum þá ekki alla. Við höfum kannski þurft meiri vinnu í kringum það. En að öðru leyti er þetta nokkuð venjulegt. En við þurfum að vera bæði líklamega og andlega klárir á morgun þegar dómarinn flautar leikinn á,“ sagði Rúnar.

Vilja áfram eiga möguleika fyrir seinni leikinn

„Okkur hefur nú yfirleitt gengið vel þegar við höfum átt fyrri leikinn á heimavelli, þó svo að flestir vilji eiga seinni leikinn heima. Við fáum allavega slatta af fólki til að koma og horfa á leikinn og ég geri ráð fyrir mikilli stemningu og vonandi einhverjum Skotum. En við viljum reyna að ná í hagstæð úrslit svo við eigum ennþá einhverja möguleika þegar út til Glasgow verður komið í seinni leikinn í næstu viku. Jafntefli á heimavelli yrðu mjög góð úrslit fyrir okkur og sigur auðvitað frábær,“ sagði Rúnar sem segir sína leikmenn nálgast Celtic með góða trú á verkefnið.

„Við erum það reynslumiklir og vanir því að taka þátt í Evrópukeppni og margir leikmenn spilað ár eftir ár í þessu, þannig það hefur enginn neina minnimáttakennd. Alls ekki. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að þessi andstæðingur okkar spilar mjög vel, eru með sterkt lið og ef allt er eðlilegt þá eigum við kannski ekki að eiga mikla möguleika. En í fótbolta er allt hægt og við þurfum bara að fara inn í þennan leik með trú á verkefnið, á þá leikaðferð sem við ætlum að beita og vinna eftir henni. Það er enginn leikur unninn fyrirfram og við ætlum að reyna að stríða þeim og gera þeim lífið leitt. Vonandi er það eitthvað sem heppnast hjá okkur, því þá er möguleiki á hagstæðum úrslitum,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR-inga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert