Skulum ekki telja upp alla sem voru lamdir

„Ef við eigum að telja upp alla þá leikmenn sem voru lamdir þá skulum við fara að vara okkur,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, þegar mbl.is spurði hann um atvikið þegar markvörður Keflavíkur sló leikmann Þórs innan vítateigs í fyrri hálfleik í markalausu jafntefli liðanna og hlaut aðeins gult spjald fyrir.

Kristján var ánægður með sína menn og stigið, en sagði að miðað við frammistöðuna hefðu Keflvíkingar átt skilið öll stigin þrjú sem voru í boði.

Spurður um áðurnefnt atvik sagði Kristján að markvörðurinn, Jonas Sandquist, hefði brugðist við áreiti Jóhanns Helga Hannessonar. „Það er nokkuð sem við vorum búnir að leggja upp með að ætti ekki að gera og ég var mjög óánægður með markmanninn þá.“

Hann kvaðst hafa séð atvikið. „Ég sá það já, en dómarinn dæmir leikinn, ég dæmi hann ekki. Og ef við eigum að telja upp alla þá leikmenn sem voru lamdir þá skulum við fara að vara okkur. Einfalt mál,“ ítrekaði Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert