Atli orðinn fjórði markahæstur

Atli Viðar Björnsson.
Atli Viðar Björnsson. mbl.is/Styrmir Kári

Atli Viðar Björnsson sóknarmaður FH náði rétt í þessu enn einum áfanganum í markaskori sínu í efstu deild karla í knattspyrnu.

Atli var að koma FH í 2:1 gegn Breiðabliki á Kópavogsvellinum með sínu sjötta marki í deildinni á þessu keppnistímabili.

Þar með er hann orðinn fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 96 mörk og fór einu marki framúr Hermanni  Gunnarssyni, sem skoraði 95 mörk fyrir Val og Akureyri og er nú í 5. sætinu.

Tryggvi Guðmundsson (131), Ingi Björn Albertsson (126) og Guðmundur Steinsson (101) eru þeir þrír leikmenn sem hafa skorað fleiri mörk í deildinni en Atli Viðar.

FH-ingar eru yfir í hálfleik gegn Breiðabliki, 3:2, en misstu Kassim Doumbia af velli með rautt spjald skömmu fyrir hlé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert