Stjóri Motherwell: Komnir til að skora mörk

Knattspyrnustjóri Motherwell, Stuart McCall (t.h.) og Stuart Carswell leikmaður Motherwell …
Knattspyrnustjóri Motherwell, Stuart McCall (t.h.) og Stuart Carswell leikmaður Motherwell (t.v.). mbl.is/Pétur

Stuart McCall, knattspyrnustjóri skoska úrvalsdeildarliðsins Motherwell var brattur fyrir leikinn gegn Stjörnunni og býst við skemmtilegum og opnum leik en liðið eigast við annað kvöld í 2. umferð Evrópudeildar UEFA. Fyrri leikurinn fór 2:2 þar sem jöfnunarmark stjörnunnar kom á lokamínútu leiksins úr vítaspyrnu, en bæði mörk Stjörnunnar skoraði Ólafur Karl Finsen af vítapunktinum.

„Við búumst við því að þetta verði mjög svipað og í fyrri leiknum. Stjarnan hefur einungis tapað einum leik af síðustu sextán sem þeir hafa spilað þannig að þeir hljóta að hafa mikið sjálfstraust. Þeir eru góðir í skyndisóknum sínum en við erum fullvissir um að geta skapað færi líka,“ sagði McCall á blaðamannafundi í kvöld.

McCall telur að hvorugt liðið sé sigurstranglegra í leiknum.

„Ég held að hvorugt liðið sé sigurstranglegra. Við erum betri eftir að hafa spilað fyrri leikinn og bæði lið vita meira um mótherja sína núna heldur en áður. Ég held að bæði lið séu bjartsýn um að komast áfram,“

Ljóst er að Skotarnir koma vel undirbúnir til leiks. Þeir hafa séð tvo leiki með Stjörnunni. Annan í 1. umferð forkeppninnar þar sem Stjarnan vann Bangor City 4:0 ytra. Stjörnuliðið kom þeim því ekki á óvart.

„Nei, ég sá þá spila í Bangor (í Wales) og í 2:2 jafnteflinu gegn FH í deildinni, það var góður leikur. Við þekktum Ólaf Karl Finsen, Arnar Má Björgvinsson. Það eru góðir leikmenn. Veigar Páll Gunnarsson þekktum við, en hann gæti spilað betur á gervigrasinu. Hann er góður leikmaður,“

Í fyrri viðureigninni var mikið um færi og sagði McCall eftir þann leik að lokatölur hefðu getað verið 6:6. Leikurinn verður því opinn þar sem góðir sóknarmenn beggja liða fá að njóta sín. Aðspurður segir McCall liðið ekki ætli að gæta neinna leikmanna sérstaklega í leiknum. Liðið er hingað mætt til þess að skora mörk.

„Stjarnan hefur góða sóknarmenn og það höfum við líka. Þetta verður opinn leikur og mögulega verða mörg mörk skoruð,“ sagði McCall og hélt áfram.

„Ólafur Karl Finsen og Arnar Már Björgvinsson eru miklir markaskorarar. Mér finnst Veigar Páll Gunnarsson vera góður leikmaður og reyndur. Við erum ekki að horfa á neinn leikmann sérstaklega til þess að hafa gætur á, við erum komnir hingað til að skora mörk. Ég vona að það verði skoruð mörg mörk, ef þetta fer 6:6 þá er það bara gott fyrir okkur,“ sagði McCall.

Gervigrasið verður ekki vandamál að mati McCall.

Það verður ekki vandamál. Við höfum spilað á gervigrasi í Skotlandi. Þetta hjálpar í raun okkur þar sem við höfum tæknilega góða leikmenn. Það er gott fyrir lið sem vilja spila knattspyrnu. Það viljum við gera,“ sagði McCall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert