FH kaupir Lennon frá Sandnes Ulf

Steven Lennon er á leið til FH.
Steven Lennon er á leið til FH. mbl.is/Sigurgeir S.

FH-ingar hafa komist að samkomulagi við norska liðið Sandnes Ulf um kaupverðið á skoska framherjanum Steven Lennon, en norska liðið greinir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.

„Við viljum þakka honum fyrir dvölina hjá Sandnes Ulf og óskum honum velfarnaðar í komandi ævintýrum á Íslandi,“segir í tilkynningu frá félaginu.

Lennon fór til Noregs frá Fram í fyrra, en eins og greint var á mbl.is í gær þá var búið að opna dyrnar fyrir honum að fara aftur til Íslands. Hann ætti því að verða orðinn leikmaður FH-inga á næstu dögum.

Lennon er 26 ára gamall og er uppalinn hjá skoska stórveldinu Rangers þar sem hann lék þrjá leiki í úrvalsdeildinni ásamt því að spila með U21 og U19 ára landsliðum Skotlands. Hann lék hluta tímans þar sem lánsmaður hjá Partick Thistle og enska liðinu Lincoln. Þá spilaði Lennon með Dundalk á Írlandi og velska liðinu Newport en kom til liðs við Framara á miðju sumri 2011. Hann spilaði þar í tvö ár og lék alls 37 leiki og skoraði 13 mörk fyrir Safamýrarliðið í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert