Ólsarar í toppbaráttu eftir sigur á Selfossi

Úr leik Ólsara í sumar.
Úr leik Ólsara í sumar. Alfons Finsson

Selfoss tók á móti Víkingi Ólafsvík í eina leik kvöldsins í 1. deild karla og fóru leikar þannig að gestirnir úr Ólafsvík fóru með sigur af hólmi 2:0.

Fyrsta mark leiksins kom úr vítaspyrnu en brotið var á Þorsteini Má Ragnarssyni, lánsmanni Ólsara en hann var að leika í sínum fyrsta leik eftir komuna þangað frá KR. Eyþór Helgi Birgisson fór á punktinn og kom Ólsurum í 1:0 en markið hjá Eyþóri var hans níunda í sumar.

Þorsteinn Már Ragnarsson stimplaði sig heldur betur inn í sitt gamla lið þegar hann kom Ólsurum í 2:0 á 64. mínútu. Annar lánsmaður, Ragnar Þór Gunnarsson frá Val var nálægt því að minnka muninn fyrir Selfyssinga á 69. mínútu en skalli hans hafnaði í stönginni. Selfyssingar urðu hins vegar að sætta sig við að skora ekki mark á heimavelli enn eina ferðina í sumar. Lokatölur urðu því 2:0, en með sigrinum komast Víkingar í 4. sæti með 22 stig. Selfyssingar eru hins vegar áfram í 8.  sætinu með 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert