Breiðablik í annað sætið - Fyrsta stig ÍA

Rakel Hönnudóttir skoraði tvö í kvöld.
Rakel Hönnudóttir skoraði tvö í kvöld. Eva Björk Ægisdóttir

Breiðablik komst upp í annað sæti Pepsi-deildar kvenna í kvöld eftir sigur á Fylki í baráttunni í efri hluta deildarinnar, en lokatölur urðu 4:0 fyrir Blika.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Blikar voru sterkari án þess þó að ná að skora. Hlynur Eiríksson þjálfari þeirra var greinilega ósáttur eftir markalausan fyrri hálfleik og gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik.

Það skilaði sínu fljótt, því Fanndís Friðriksdóttir kom Blikum yfir úr vítaspyrnu á 53. mínútu sem hún fékk sjálf. Einungis fjórum mínútum síðar kom Rakel Hönnudóttir Blikum í 2:0 með marki úr teignum, og útlitið dökkt fyrir Fylki. Ekki batnaði það heldur þegar Fanndís skoraði sitt annað mark, 3:0 þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir.

Strax í næstu sókn fékk Fjolla Shala að líta rauða spjaldið og enn von fyrir Fylki, sem gerði þrefalda skiptingu strax í kjölfarið og bætti í sóknina. Það kom hins vegar niður á vörninni og Rakel skoraði sitt annað mark átta mínútum fyrir leikslok eftir magnaðan sprett. Þar við sat, Blikar í öðru sæti með 22 stig en Fylkir datt niður í það fjórða með 20 stig.

Fyrsta stigið í hús á Skaganum

ÍA og FH skildu jöfn 3:3 í miklum spennuleik á Akranesi. Stigið sem ÍA hlýtur er það fyrsta sem liðið fær í sumar.

Ana Cate skoraði fyrsta mark leiksins eftir einungis þrjár mínútur en Skagastúlkur gáfust ekki upp. Maren Leósdóttir jafnaði metin fyrir ÍA Á 31. mínútu eftir góðan leikkafla liðsins en einungis fimm mínútum síðar kom hún ÍA í 2:1. Ana Cate jafnaði leikinn fyrir FH á 62. mínútu áður en æsispennandi lokamínútur hófust.

Það leit út fyrir fyrsta sigur ÍA liðsins þegar að Laken Duchar fylgdi á eftir góðu skoti Guðrúnar Karítasar Sigurðardóttur sem fór í þverslána en FH-liðið neitaði að gefast upp. Á 88. mínútu skoraði Sandra Sif Magnúsdóttir síðasta mark leiksins með góðu skoti. Lokatölur urðu 3:3.

Valskonur skoruðu í uppbótartíma

Í Mosfellsbæ lagði Valur heimakonur í Aftureldingu. Valsliðið komst yfir strax á 2. mínútu með marki frá Elínu Mettu Jensen. Afturelding jafnaði hins vegar leikinn þegar að Edda María Birgisdóttir skoraði á 64. mínútu með skoti langt utan af velli.

Leikurinn virtist ætla að sigla í jafntefli en varamaðurinn Kristín Ýr Bjarnadóttir var á öðru máli þegar hún skoraði í uppbótartíma með sinni fyrstu snertingu og tryggði Valskonum sigurinn. Dýrmæt stig í súginn hjá Aftureldingu í fallbaráttunni.

ÍA hlaut sitt fyrsta stig en kemst skammt á því og er áfram í botnsæti deildarinnar. Staða FH liðsins í deildinni er einnig óbreytt, liðið situr í 8. sæti með 9 stig, þremur stigum á undan Aftureldingu í 9. sætinu. Valskonur eru einnig áfram í 6. sæti deildarinnar og hafa 18 stig og sigla lygnum sjó fyrir miðju deilarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert