Beitir bjargaði HK í lokin gegn KA

Viktor Unnar Illugason úr HK og Karsten Smith úr KA …
Viktor Unnar Illugason úr HK og Karsten Smith úr KA í leiknum í Kórnum. mbl.is/Styrmir Kári

HK og KA skildu jöfn, 1:1, í 1. deild karla í knattspyrnu í Kórnum í kvöld. Liðin eru áfram í fimmta og sjötta sæti deildarinnar,  HK er með 22 stig en KA 21 og HK-ingar eru enn ósigraðir á heimavelli sínum í Kórnum.

HK komst yfir á 11. mínútu leiksins þegar Guðmundur Magnússon skoraði með skalla eftir aukaspyrnu Viktors Unnars Illugasonar.

KA jafnaði metin á lokasekúndum fyrri hálfleiks þegar Gunnar Örvar Stefánsson komst innfyrir vörn HK eftir snögga sókn og glæsilega sendingu frá Arsenij Buinickij og skoraði af yfirvegun, 1:1.

KA var síðan mun sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum og setti oft mikla pressu á mark HK. Kópavogsliðið stóðst hana og fékk svo tvö góð færi á lokakaflanum til að tryggja sér sigurinn. Í seinna skiptið bjargaði Karsten Smith miðvörður KA glæsilega með skalla á marklínu eftir þrumuskot Guðmundar Magnússonar.

Í lokin varði síðan Beitir Ólafsson í marki HK skalla frá Gunnari Örvari af stuttu færi, og síðan í tvígang í sömu sókninni í lok uppbótartímans, frá Arsenij Buinickij og Óafi Hrafni Kjartanssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert