Stjóri Inter: Pressan er á okkur

„Stjarnan hefur ekki tapað neinum af þessum sex leikjum sem liðið hefur spilað í Evrópudeildinni í sumar og ég hef mestar áhyggjur af því að Stjarnan sé í betra formi en mínir leikmenn. Við höfum bara spilað æfingaleiki að undanförnu og því ólíklegt að mínir menn séu í jafngóðu líkamlegu formi og Stjörnumenn. Þess vegna vil ég fara varlega í þennan leik,“ sagði Walter Mazzarri knattspyrnustjóri Inter Mílanó á blaðamannafundi fyrir leik Stjörnunnar og Inter á Laugardalsvelli.

„Við höfum í raun öllu að tapa en Stjarnan allt að vinna. Pressan er á okkur að komast áfram. Við höfum samt teknískari leikmenn og það ætti að vera gefið mál að komast áfram ef allt væri eðlilegt. En við getum samt ekki tekið neinu sem gefnu,“ sagði Mazzarri ennfremur.

„Ég geri ráð fyrir því að við náum að spila okkar leik, en ég á von á því að Stjarnan reyni að notfæra sér byrjunarörðuleika hjá okkur því leiktíðin er varla hafin hjá okkur og menn kannski ekki fullkomnlega með leikskipulagið á hreinu. Ég á allt eins von á því að Stjarnan bíði átekta og reyni að nýta sér skyndisóknir,“ sagði Mazzarri sem virðist þó hafa mestar áhyggjur af leikformi sinna manna.

Leikformið áhyggjuefni

„Það eru ekki nógu margir menn tilbúnir í 90 mínútna leik. Ég mun því nota allar mínar skiptingar og þarf að nota þær vel. Ég hefði gjarnan viljað spila á fleiri mönnum og það er líka slæmt að sumir eru enn að ná sér eftir meiðsli og Gary Medel getur ekki heldur spilað þessa leiki gegn Stjörnunni,“ sagði Walter Mazzarri knattspyrnustjóri ítalska liðsins Inter frá Mílanó.

Inter kom með leiguflugi til Íslands í dag og fer af landi brott strax að loknum leiknum gegn Stjörnunni, seint annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert