Veigar: Ekkert mikið betri en Lech Poznan

„Ég er orðinn virkilega góður. Ég byrjaði á bekknum í síðustu tveimur deildarleikjum, en það var eiginlega bara til þess að koma mér aftur í 100% stand og mér finnst ég vera í því núna. Þannig ég er algjörlega klár í leikinn á morgun,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson liðsmaður Stjörnunnar við mbl.is eftir æfingu Stjörnunnar á Laugardalsvelli í dag.

Stjarnan mætir Inter Mílanó í fyrri leik liðanna í 4. umferð Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu klukkan 21.00 annað kvöld á Laugardalsvelli. Veigar segir að allir muni leggja allt í sölurnar annað kvöld. „Það munu allir hlaupa úr sér líftóruna á morgun. Það vilja auðvitað allir leikmennirnir í hópnum spila þennan leik á morgun, en það komast bara 11 í liðið. En ég get allavega lofað því að menn munu leggja sig alla í leikinn.“

„Það eru allir góðir í fótbolta í þessu Inter-liði. Þeir eru góðir með boltann. Þeir eru frekar mikið í því að stinga boltanum. Við höfum séð hvernig hlaup þeir taka og hvar þeir vilja opna okkur. Við ætlum að loka á það og svo verðum við bara 11 í vörn og vonumst eftir skyndisóknum. Þá getur allt gerst,“ sagði Veigar.

Veigar er mjög spenntur fyrir leikinn og ánægður með að uppselt sé á leikinn. „Það er magnað að við munum fylla Laugardalsvöllinn og þetta er ekki landsleikur, heldur félagslið að spila. Mig hlakkar gríðarlega til að sjá hvernig stemningin verður á morgun.“

„Við höfum trú á þessu og við verðum að hafa trú á því að við getum unnið þá. Ég vil meina að Inter sé ekkert mikið betra lið en Lech Poznan. Þannig við vitum alveg að við eigum möguleika,“ sagði Veigar Páll.

Viðtalið við Veigar má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert