Draumurinn um HM varð að engu

Vonir íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu um að komast á HM í Kanada á næsta ári urðu að engu í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Danmörku á Laugardalsvelli, 1:0. Danmörk komst þar með upp fyrir Ísland í 2. sæti riðilsins en Sviss hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum.

Ísland er með 13 stig en Danmörk 15 og eiga bæði lið tvo leiki eftir. Þó að Ísland næði 2. sætinu aftur er ljóst að stigasöfnunin hefur ekki verið nógu góð til að raunhæft sé að liðið komist í umspil. Aðeins fjögur lið með bestan árangur í 2. sæti í undanriðlunum komast í umspilið.

Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti og skapaði sér nokkur góð færi áður en Harpa Þorsteinsdóttir komst í dauðafæri, ein gegn markverði, eftir rúmlega korters leik. Skot hennar var hins vegar varið. Sara Björk Gunnarsdóttir átti skot rétt yfir þverslána strax í næstu sókn og allt leit út fyrir að Ísland myndi keyra yfir gestina í jómfrúarheimsókn þeirra á Laugardalsvöll.

Áfram hélt Ísland að sækja og eftir tæplega hálftíma leik áttu Dagný Brynjarsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir sitt dauðafærið hvor en Stina Lykke Petersen varði frá Dagnýju og skot Fanndísar fór af varnarmanni í hliðarnetið.

Ísland slapp hins vegar með skrekkinn á lokaandartökum fyrri hálfleiks þegar þrumuskalli Sofie Pedersen fór í þverslána og beint niður á marklínuna. Sumir vildu meina að boltinn hefði farið inn en dómararnir voru ekki á sama máli. Staðan var því markalaus í hálfleik.

Ísland hélt áfram að pressa í upphafi seinni hálfleiks en á 58. mínútu, gegn gangi leiksins, skoruðu Danir þegar Pernille Harder fékk boltann í teignum og smellti honum upp í hægra hornið.

Eftir markið var eins og slökkt hefði verið á íslenska liðinu. Það hætti alveg að skapa sér færi og svo virtist sem þreyta væri farin að segja til sín eftir mikil hlaup allan leikinn. 

Freyr Alexandersson þjálfari reyndi að fríska upp á sóknarleikinn með því að setja Hólmfríði Magnúsdóttur inná fyrir Fanndísi en það breytti engu. Arna Sif Ásgrímsdóttir kom inná í sínum fyrsta landsleik fyrir Glódísi Perlu Viggósdóttur sem átti við meiðsli að stríða í aðdraganda leiksins. Arna Sif komst vel frá sínu í frumrauninni.

Viðtöl við leikmenn koma inn hér á mbl.is síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

Ísland 0:1 Danmörk opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 3 mínútur. Það er nóg fyrir eitt mark en varla tvö eins og þetta er að spilast.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert