Rúnar Páll: Aldrei upplifað annað eins

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segist aldrei hafa upplifað aðra eins stemningu á Laugardalsvelli og í kvöld þó hann hafi sótt landsleiki frá ungra aldri. 

„Frábær stemning á vellinum og ég hef aldrei upplifað annað eins þó ég hafi komið á landsleiki á Laugardalsvöll frá því ég var lítill drengur en aldrei áður upplifað svona stemningu. Það var frábært fyrir mína menn að upplifa þetta og fer allt í reynslubankann.“ 

Þrátt fyrir 0:3 tap fyrir stórliði Inter Mílanó var Rúnar hinn ánægðasti með sína menn. „Inter Mílanó er mjög gott lið, við skulum átta okkur á því. Frammistaðan sem slík var mjög góð í alla staði. Leikmenn gerðu það sem lagt var upp með og spiluðu agaða vörn. Það gekk upp lengst af í fyrri hálfleiknum og þá sköpuðu Ítalirnir ekki mörg marktækifæri þó þeir hafi legið á okkur. Við fengum mark á okkur undir lok fyrri hálfleiks sem var kannski klaufaskapur að okkar hálfu og skortur á samskiptum milli miðvarðanna Martins og Daníels. Staðan var svo sem ágæt að loknum fyrri hálfleik en fengum svo á okkur annað mark strax í upphafi síðari hálfleiks. Það var heldur ekki nógu gott af okkar hálfu. Eftir það reyndum við að fara aðeins framar til þess að skora og fengum ágætis upphlaup áður en þriðja markið kom sem var ágætis mark hjá Inter,“ sagði Rúnar Páll þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn að leiknum loknum. 

Leikmenn Stjörnunnar þakka fyrir stuðninginn.
Leikmenn Stjörnunnar þakka fyrir stuðninginn. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert