40-50 þúsund manns verða á leik Inter og Stjörnunnar

Pablo Punyed í baráttu við tvo leikmenn Inter í síðustu …
Pablo Punyed í baráttu við tvo leikmenn Inter í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Það var gott hljóðið í Rúnari Páli Sigmundssyni þjálfara Stjörnunnar þegar mbl.is sló á þráðinn til hans í morgun en Stjörnumenn eru í Mílanó og mæta liði Inter í seinni leiknum í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á San Síró vellinum glæsilega annað kvöld.

„Það er bara æðislegt hérna og tilhlökkunin er mikil hjá okkur að spila þennan leik. Auðvitað vitum við að það er á brattann að sækja í þessu einvígi en við ætlum að njóta þess að spila leikinn,“ sagði Rúnar Páll en Inter hafði betur í fyrri rimmu liðanna á Laugardalvellinum fyrir viku síðan, 3:0.

„Þeir segja okkur að það verði á bilinu 40-50 þúsund manns á leiknum enda er þetta fyrsti keppnisleikur liðsins á heimavelli á tímabilinu og stuðningsmenn liðsins vilja eðlilega sjá nýju mennina sem eru komnir til félagsins,“ sagði Rúnar en Stjörnuliðið æfir á San Síró vellinum í kvöld eða Giuseppe Meazza eins og leikvangurinn heitir. Hann tekur 80.000 manns í sæti.

Ljóst er Jóhann Laxdal getur ekki verið með í leiknum og sennilega er hann úr leik það sem eftir er tímabilsins en allir aðrir eru klárir í slaginn. „Það er enginn meiddur þegar út svona leik er komið. Það vilja allir spila,“ sagði Rúnar en lengra viðtal við hann verður í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert