Sex marka tap á San Síró

Stjarnan féll í kvöld úr leik í fjórðu og síðustu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu, gegn Inter Mílanó. Inter vann seinni leik liðanna á San Síró í kvöld, 6:0, og einvígið því samtals 9:0.

Stjarnan mátti sín lítils á heimavelli ítalska stórliðsins í kvöld. Króatinn Mateo Kovacic var í miklu stuði og opnaði markareikning heimamanna með tveimur mörkum með skömmu millibili eftir um hálftíma leik. Staðan var 2:0 í hálfleik.

Dani Osvaldo bætti þriðja marki Inter við í upphafi seinni hálfleiks og Kovacic fullkomnaði þrennuna sína skömmu síðar.

Framherjinn Mauro Icardi var einn þeirra sex leikmanna Inter sem settur var á varamannabekkinn frá leiknum á Laugardalsvelli, en hann kom inná á 53. mínútu og náði að skora tvö síðustu mörk leiksins.

Stjarnan náði örfáum sóknum í leiknum og náði tvívegis skoti, þar af aðeins einu sem hitti á mark Inter.

Garðar Jóhannsson kom inná fyrir Stjörnuna á 59. mínútu en meiddist skömmu síðar. Þá hafði Stjarnan nýtt allar sínar skiptingar og lék því manni færri út leikinn.

Stjörnumenn voru vel studdir af sinni sveit, Silfurskeiðinni, sem fjölmennti til Mílanó á þennan stærsta leik í sögu félagsins.

Inter 6:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Yuto Nagatomo (Inter) fær gult spjald Fáránlegt brot á Vemmelund við vítateig Stjörnumanna. Ekki mikil skynsemi í þessu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert