Ólafur ætlar á veiðar og stefnir á Evrópukeppni

Ólafur Þórðarson er á leið á veiðar.
Ólafur Þórðarson er á leið á veiðar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Ólafur Þórðarson, herforinginn mikli og þjálfari Víkinga, var vel sáttur með sigur sinna manna gegn Þór í kvöld. Hann setti sínum aðstoðarmönnum fyrir prógram næstu viku og virtist vera að fara í ferðalag. Síðan gaf hann sig á tal við Morgunblaðið.

„Ég er að fara á veiðar. Það er fastur punktur í tilverunni hjá mér að fara á gæsaveiðar austur á Héraði og nú er smá hlé í deildinni svo þetta passar ágætlega. Jú ég er ágætis skytta en fólk sem sæi mig með byssu myndi eflaust forða sér því ég hitti ekki alltaf það sem á að skjóta,“ sagði Ólafur.

En leikurinn og sigurinn?

„Ég er bara sáttur með strákana. Þetta var ekki auðvelt og aðstæður líka erfiðar. Þórsarar voru nánast á síðasta sénsinum sínum og börðust grimmilega. Dagurinn í raun fór ekki vel með okkur þar sem við komumst ekki í flug og þurftum að breyta um fararmáta. Við redduðum okkur rútu og vorum mættir rúmum klukkutíma fyrir leik. Þetta var ekki óskaundirbúningur en svona er þetta stundum,“ sagði Ólafur sem setur allan þunga að ná Evrópusæti.

„Nú eru það bara Valsararnir sem við erum að keppa við um Evrópusætið. Ég á margar góðar minningar úr Evrópukeppnum og það yrði gaman að fá að taka þátt með liðið og strákana. Strákarnir verða endilega að kynnast því og það er langt síðan Víkingur var í Evrópukeppni. Þessi deild er reyndar virkilega snúin. Það eru allir að berjast fyrir einhverju og við höfum lent í veseni í síðustu leikjum á móti liðum í fallhættu sem eru að reyna að berja sig ofar. Því er ég bara sáttur með sigur í þessum leik,“ sagði Ólafur Þórðarson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert