Sandor: Hugsa bara um næsta leik

Sandor Matus hefur staðið fyrir sínu í marki Þórs.
Sandor Matus hefur staðið fyrir sínu í marki Þórs. mbl.is/Þórir Tryggvason

Ungverjinn Sandor Matus hefur staðið á milli stanganna hjá Þór í allt sumar og hefur vakið mikla athygli fyrir góða leiki. Eftir mörg ár í herbúðum KA ákvað hann að söðla um og koma sér í Pepsi-deildina til erkifjendanna. Hvað fannst Sandori um leikinn gegn Víkingum í kvöld og sumarið það sem af er?

„Það er alltaf erfitt þegar við náum ekki að skora. Það vantar ekki viljann og baráttuna í liðið en því miður hefur vantað mörk í síðustu leikjum. Markið sem Víkingar skoruðu var dálítið slysalegt en mörkin koma oft eftir mistök og klafs og þarna var Víkingurinn allt í einu kominn með boltann beint fyrir framan sig og ég reyndi að sjálfsögðu að verja en hann náði góðu skoti,“ sagði Sandor, en staða Þórsara er ansi svört eftir tapið.

„Sumarið hefur verið skemmtilegt þrátt fyrir allt. Ég get ekki beðið eftir næsta leik, mitt markmið er bara að standa mig sem best og verja næsta bolta. Þessi lið sem við erum að mæta eru öll góð lið en við höfum ekki alltaf verið nógu góðir og stundum höfum við spilað vel án þess að uppskera nokkuð. Ég hugsa bara um næsta leik.“

Sandor hefur verið kallaður vítabani í fjölmiðlum enda varði hann mörg vítin í KA-búningnum. „Það var smá pressa á mér í fyrstu vítunum. Við höfum fengið sjö víti á okkur í sumar og fjögur hafa farið í markið. Hlutfallið er bara ágætt en ég hefði viljað taka fleiri. Svo mega þeir þarna í Pepsi-mörkunum fara að segja nafnið mitt rétt,“ sagði hinn hæverski og jarðbundni Sandor að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert