Aukaspyrnur afgreiddu Keflvíkinga í Garðabæ

Magnús Þórir Matthíasson, Keflavík og Arnar Már Björgvinsson, Stjörnunni í …
Magnús Þórir Matthíasson, Keflavík og Arnar Már Björgvinsson, Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Kristinn

Stjarnan og Keflavík áttust við í lokaleik dagsins í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en leikar fóru þannig að Stjörnumenn fóru með sigur af hólmi 2:0 í miklum rokleik í Garðabænum eftir tvö mörk beint úr aukaspyrnu í sitt hvorum hálfleiknum.

Mikill vindur setti mark sitt á leikinn en Keflvíkingar, sem vanir eru að spila í roki létu það ekki á sig fá fyrstu mínúturnar og byrjuðu vel. Stjörnumenn unnu sig hægt og bítandi inn í leikinn og voru komnir með tökin á honum eftir tíu mínútna leik en áfram var hart barist.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 25. mínútu þegar miðjumaður Stjörnunnar Pablo Punyed skoraði beint úr aukaspyrnu eftir að miðvörður Keflvíkinga, Halldór Kristinn Halldórsson braut á Pablo sjálfum.

Mikil barátta einkenndi síðari hálfleikinn þar sem erfitt er að segja að annað hvort liðið hafi verið betra en Keflvíkingar þjörmuðu þó verulega á Stjörnumenn um miðbik síðari hálfleiksins. Líklega komust þeir næst því að jafna metin þegar Hörður Sveinsson skaut á markið en varnarmaður Stjörnunnar varði á marklínu.Keflvíkingar náðu hins vegar aldrei að opna vörn Stjörnumanna að neinu viti eftir færi Harðar.

Veigar Páll Gunnarsson átti síðasta orð leiksins þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu líkt og Pablo í fyri hálfleik en líklega hefði Jonas Sandqvist í marki Keflavíkur átt að gera betur.

Eftir sigurinn sitja Stjörnumenn áfram í 2. sæti, tveimur stigum frá FH-ingum í toppsætinu sem hafa 44 stig. Keflavík er hins vegar áfram með 19 stig og er í bullandi fallbaráttu.

Fylgst var með gangi mála í leiknum hér á mbl.is.

Stjarnan 2:0 Keflavík opna loka
90. mín. Keflvíkingar vilja frá víti en fengu ekkert nema hornspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert