Ágúst: Sjálfstraust frá fyrstu mínútu

Guðmundur Karl Guðmundsson sækir að marki Fram í leikum í …
Guðmundur Karl Guðmundsson sækir að marki Fram í leikum í kvöld. Ingiberg Ólafur Jónsson er til varnar. mbl.is/Golli

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnismanna, var að vonum kampakátur eftir góðan 3:1 útisigur á Frömurum á Laugardalsvelli í kvöld. Fjölnir lék á als oddi í þessum botnbaráttuslag og fór illa með lánlausa Framara.

Ágúst var ekki síður ánægður með stuðninginn sem liðið fékk í kvöld frá Grafarvogsbúum.„Það var frábær karakter og frábær stuðningur sem skóp þennan sigur í kvöld,“ voru fyrstu orð Ágústs við fjölmiðla að leik loknum. „Við sýndum sjálfstraust strax frá fyrstu mínútu og héldum boltanum vel. Sigurinn í dag er kærkominn.“ 

Ágúst sagðist hafa brýnt fyrir sínum mönnum að sýna þolinmæði í leiknum í kvöld.  „Við vissum að Framarar kæmu nokkuð ofarlega á okkur, sem þeir gerðu, og við náðum stundum að spila þá út. Við lögðum upp með að vera þolinmóðir og spila okkar leik.“ 

Í þeirri hörðu botnbaráttu sem framundan er segist Ágúst aðeins geta treyst á frammistöðu sinna manna. „Við munum treysta á okkur. Ef við erum í lagi, þá uppskerum við. Okkar markmið er að halda okkur í deildinni. Við erum ekki sloppnir og erum enn með í baráttunni. Við setjum botnbaráttuna í uppnám með sigri í dag eins og margir hafa rætt um.“ 

Fjölnir situr í 9. sæti deildarinnar með 19 stig en Framarar eru komnir aftur í fallsæti, stigi á eftir Fjölni og Keflvíkingum, sem eru í 10. sæti. Næsti leikur Fjölnis er á sunnudaginn en þá taka þeir gulklæddu á móti ósigruðum Stjörnumönnum. 

„Það verður mjög erfitt,“ sagði Ágúst um Stjörnuleikinn. „Þetta verður eflaust hörkuleikur á milli tveggja góðra liða. Það eru þrír erfiðir leikir eftir sem við verðum að fá eitthvað út úr. Við munum mæta með mikið sjálfstraust og höfum allt að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert