Þórir: Gæti ekki verið stoltari

Jóhannes Karl Guðjónsson og Þórir Guðjónsson eigast við í leiknum …
Jóhannes Karl Guðjónsson og Þórir Guðjónsson eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

„Þetta var virkilega góður leikur. Við þurftum að vinna þennan leik og gerðum það svo sannarlega,“ sagði glaðlyndur Þórir Guðjónsson, framherji Fjölnis, við mbl.is eftir að liðið sigraði Fram 3:1 á Laugardalsvellinum í kvöld.

Með sigrinum komst Fjölnir upp úr fallsæti á meðan Fram situr eftir í 11. sæti deildarinnar, stigi á eftir þeim gulklæddu. 

„Markmiðið fyrir leik var að halda skipulagi eins lengi og við mögulega gátum. Við vildum ekki hleypa þessu upp í neina vitleysu. Eftir markið fengum við aukið sjálfstraust og gengum á lagið,“ útskýrði Þórir.  

Þórir lék sinn besta leik í sumar en hann gekk í raðir Fjölnis frá Val í fyrrasumar. Hann skoraði laglegt mark í fyrri hálfleik og í þeim síðari lagði hann upp mark fyrir Ragnar Leósson með góðum undirbúningi.  

„Ég held að þetta hafi verið minn besti leikur í sumar sem og hjá liðinu,“ sagði Þórir þegar talið barst að honum sjálfum. „Við spiluðum frábærlega í kvöld og ég gæti ekki verið stoltari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert