Sonur Tryggva Guðmunds æfir með Stabæk

Tryggvi Guðmundsson er orðinn fertugur og leikur nú með KFS …
Tryggvi Guðmundsson er orðinn fertugur og leikur nú með KFS þar sem hann stefnir á að bæta markametið á Íslandi yfir allar deildir, sem hann vantar fjögur mörk upp á að ná. Hann á þegar markametið í efstu deild. mbl.is/Golli

Guðmundi Andra Tryggvasyni, 14 ára syni markahróksins Tryggva Guðmundssonar, hefur verið boðið til æfinga hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Stabæk um mánaðamótin.

Guðmundur Andri, sem verður 15 ára í nóvember, mun æfa með unglingaliði Stabæk auk þess að fá að mæta á 1-2 æfingar með aðalliðinu, en hann hefur áður farið með unglingaliðinu á mót í Búlgaríu.

Norðmenn muna vel eftir Tryggva sem skoraði 36 mörk í 76 deildarleikjum fyrir Tromsö árin 1998-2000 áður en hann fór til Stabæk í tvö ár og skoraði 24 mörk í 66 leikjum. Árið 1999 tók hann þátt í því þegar Stabæk tókst að skora 70 mörk á einu tímabili og setti þar með met. Það ár fæddist einmitt Guðmundur Andri.

Guðmundur Andri leikur sem kantmaður eða framherji eins og faðir sinn en hann er leikmaður 3. flokks KR sem varð Íslandsmeistari fyrir skömmu. Þá var hann í U15-landsliði Íslands sem fékk bronsverðlaun á Ólympíuleikum ungmenna í Kína í ágúst.

Þekkjum pabbann vel

„Hann ætlar að prófa sig á aðeins hærra stigi núna. Við höfum rætt um að hann æfi með unglingaliðinu og fái svo líka að vera með á 1-2 æfingum aðalliðsins,“ sagði Tryggvi við norska miðilinn Nordlys.

Á vef Nordlys er einnig rætt við yfirmann íþróttamála hjá Tromsö, Svein-Morten Johansen, en ekki er á honum að heyra að félagið vilji berjast við Stabæk um Guðmund Andra strax.

„Við vitum að hann er í landsliði og þekkjum jú pabbann vel, en við erum ekki með neinar áætlanir um að fá hann í svona heimsókn. Það að Tryggvi hafi búið hérna og sé með sterkt samband við Tromsö getur hins vegar í framtíðinni haft sitt að segja með svona leikmann, þó að ekkert sé ákveðið með það,“ sagði Johansen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert