Ólafur: Guð almáttugur gerir þetta ekki fyrir okkur

Ólafur Þórðarson var hundóánægður með það hvernig hans menn nýttu …
Ólafur Þórðarson var hundóánægður með það hvernig hans menn nýttu færin sín í Víkinni í dag. mbl.is/Ómar

„Því miður virðumst við ekki hafa nógu mikil gæði til að skila þessum færum í netið,“ sagði Ólafur Þórðarson þjálfari Víkinga, hundfúll eftir 1:0-tapið gegn Stjörnunni í Pepsi-deild karla í kvöld. Víkingar fengu frábær færi til að skora í leiknum en nýttu þau ekki.

„Þetta var ekki óheppni hjá okkur heldur klaufaskapur. Það er ekki nóg að fá færi heldur þarf að klára þau, og því miður virðumst við ekki hafa nógu mikil gæði til að skila þessum færum í netið. Við skorum allt of lítið af mörkum og í sumar hafa þetta aðallega verið tveir menn sem hafa skorað fyrir okkur. Því miður þá þurfa bara fleiri að taka ábyrgð á því að skora mörk eins og sýndi sig í dag,“ sagði Ólafur, en Víkingar voru án Arons Elís Þrándarsonar sem er enn meiddur frá því í leiknum við Val á sunnudaginn.

„Ég er sáttur við spilamennskuna, virkilega sáttur, en ekki að við skyldum ekki skora úr einhverju af þessum færum. Við vorum mikið betra liðið í þessum leik, en það er ekki nóg þegar ekki tekst að nýta færin. Ég er drullufúll með að hafa tapað þessum leik,“ sagði Ólafur. Á meðal færa sem Víkingar fengu má nefna þegar Michael Abnett var einn fyrir framan markið en skaut nánast beint á Ingvar sem hafði nývarið skot og var í litlu jafnvægi.

„Það er nú þannig að þegar menn lenda í ofboðslega opnum færum, að þá slaka þeir á einbeitingunni af því að þetta á að vera svo auðvelt. Það er akkúrat gallinn, og þetta gerðist í dag,“ sagði Ólafur.

Búlgarinn Iliyan Garov lék sinn fyrsta leik fyrir Víking í dag en fór meiddur af velli snemma í seinni hálfleik. Við það þurfti fyrirliðinn Igor Taskovic að fara af miðjunni aftur í vörnina en Ólafur segir það ekki hafa komið að sök.

„Mér fannst okkar leikur ekki riðlast neitt sérstaklega, og við héldum bara áfram að vera betra liðið á vellinum, og héldum áfram að skapa okkur færi. Hvað á maður að biðja um? Guð almáttugur gerir þetta ekki fyrir okkur. Við verðum að gera þetta sjálfir,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert