Fellur 43 ára met?

Stuðningsmenn, áhorfendur, fögnuður
Stuðningsmenn, áhorfendur, fögnuður mbl.is/Ómar

Áhorfendametið á leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu er orðið 43 ára gamalt en mögulegt er að það verði slegið á laugardaginn þegar FH og Stjarnan mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil karla í Kaplakrika. Leikurinn hefst kl. 16 en öðrum leikjum í lokaumferðinni hefur verið flýtt til kl. 13.30.

Haustið 1971 mættust Eyjamenn og Keflvíkingar í hreinum úrslitaleik um titilinn. Liðin urðu jöfn og efst að stigum en þar sem markamismunur réð ekki röð liða á þeim árum þurftu þau að mætast í sérstökum úrslitaleik á Laugardalsvellinum.

Í dagblöðum frá þessum tíma er sagt að áhorfendur hafi verið á bilinu tíu til ellefu þúsund. Sigmundur Ó. Steinarsson segir hinsvegar í bókinni 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu að áhorfendur hafi verið 8.790 talsins. Þeir sáu Keflavík vinna stórsigur, 4:0, og tryggja sér meistaratitilinn en Eyjamenn hefðu orðið meistarar á markatölu ef hún hefði ráðið úrslitum.

Næstflestir áhorfendur voru á úrslitaleik KR og ÍA á Laugardalsvellinum 1965. Þá mættu 8.534 áhorfendur og sáu KR sigra, 2:1, en það var líka aukaleikur um titilinn. Þá sáu 6.177 manns deildaleik KR og ÍA á Laugardalsvelli árið 1961.

Sömu lið mættust í úrslitaleik á Akranesvelli i september 1996. Þá mætti 5.801 áhorfandi á Akranesvöll þar sem KR nægði jafntefli til að verða meistari en ÍA vann sannfærandi sigur, 4:1. Tveimur árum síðar, haustið 1998, vann ÍBV sigur á KR, 2:0, í hreinum úrslitaleik liðanna í lokaumferðinni og þá voru 5.400 manns á vellinum.

Skráður með 6.450 áhorfendur

Þess má geta að hjá KSÍ er Kaplakrikavöllur skráður með samtals 6.450 áhorfendur. Þar af eru 3.050 í sætum, 1.900 þeirra undir þaki, en síðan er áætlað að 1.800 manns komist í uppbyggð stæði og 1.600 manns í „aðra ósamþykkta aðstöðu“.

Ólíklegt er hinsvegar að hliðunum í Kaplakrika verði læst þó fleiri en 6.450 verði komnir þar inn fyrir dyrnar þegar úrslitaleikurinn hefst!

Eftir tíu heimaleiki í ár er aðsóknin há FH sú lakasta í sex ár, eða 1.270 manns að meðaltali á leik. Ef þeir fá 5.000 áhorfendur á leikinn hækkar meðaltalið hinsvegar í 1.608 manns og þá verður heildaraðsóknin í Kaplakrika sú besta í þrjú ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert