Gott að börnin okkar tóku ekki eftir þessu

Matt Garner fagnar marki.
Matt Garner fagnar marki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Matt Garner, varnarmaðurinn sterki í liði ÍBV, var útskrifaður af sjúkrahúsi í gær en hann fótbrotnaði illa í leik Eyjamanna gegn Keflvíkingum í Pepsídeildinni í fyrradag. Garner var fluttur með sjúkraflugvél til Reykjavíkur og gekkst undir rúmlega tveggja tíma aðgerð á Landspítalanum í fyrrakvöld.

„Aðgerðin gekk bara ágætlega. Það var settur pinni frá hné niður á ökkla en það kom í ljós að báðar pípurnar fyrir ofan ökklann fóru í sundur. Læknarnir sögðu að það þyrfti ekki taka pinnann úr en ef hann angrar hann eitthvað má fjarlægja hann eftir ár. Hann má ekki stíga í fótinn næstu sex vikurnar og það er ljóst að hann spilar ekki fótbolta í bráð,“ sagði Bjartey Hermannsdóttir, unnusta Garners, við Morgunblaðið í gærkvöld en þau halda til Eyja í dag.

Bjartey var á Hásteinsvellinum þegar Garner fótbrotnaði. „Mér brá óneitanlega mikið. Ég sá það strax á viðbrögðum leikmanna að hann væri mikið slasaður. Sem betur fer tóku börnin okkar þrjú sem voru á leiknum ekki eftir þessu. Elsti strákurinn okkar var boltastrákur í leiknum en hann var eitthvað að spjalla við vini sína og sá ekki þegar Matt meiddist,“ sagði Bjartey. Matt Garner er þrítugur og hefur leikið með Eyjamönnum frá árinu 2004. Hann hefur reynst liðinu ákaflega öflugur liðsmaður. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert