Í baráttunni gegn útbreiðslu ebólu

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Ljósmynd/UNICEF

Fyrir landsleikinn í gærkvöldi tók íslenska karlalandsliðið í fótbolta upp ákall til styrktar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í ákallinu hvöttu liðsmenn fólk á Íslandi til að styrkja neyðarsöfnun fyrir börn í þeim löndum sem hafa orðið hvað verst úti vegna ebólufaraldurins.

Faraldurinn hefur orðið 4.033 einstaklingum að bana í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne og skilið þúsundir barna eftir munaðarlausar.

Ebólufaraldurinn sem nú geisar en ein stærsta áskorun sem UNICEF og heimurinn allur hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Faraldurinn er sá útbreiddasti sem komið hefur upp frá því að veiran greindist fyrst fyrir fjörutíu árum. Ástandið er alvarlegt og ljóst er að stórefla þarf aðgerðir til að hefta útbreiðslu faraldursins. 

Liðsmenn landsliðsins notuðu tækifærið í aðdraganda leiksins gegn Hollandi og vöktu máls á bágum aðstæðum barna og neyðarsöfnun UNICEFF.

Með því að senda sms-skilaboðin STOPP í símanúmerið 1900 styrkir fólk neyðarsöfnun UNICEF um 1.900 krónur. Þessari auðveldu styrktarleið vilja leikmenn landsliðsins halda á lofti. 

„Þetta tekur örskamma stund en skiptir miklu máli. Við getum öll lagt okkar af mörkum,“ segir Aron Einar Gunnarsson fyrirliði, en upptaka af ákalli landsliðsmannanna var gerð á sunnudaginn og send út rétt fyrir leikinn í gær. 

UNICEF hefur starfað lengi á þeim svæðum þar sem ebólufaraldurinn geisar og þegar flutt yfir 1.300 tonn af hjálpargögnum til að nota við meðhöndlun veikinnar og aðrar birgðir fyrir heilsugæslustöðvar og sjúkrahús. 

UNICEF og knattspyrna 
UNICEF hefur löngum unnið með knattspyrnuliðum og leikmönnum um allan heim við að vekja athygli á bágum aðstæðum barna og bæta þær. Frægt er samstarf UNICEF og stórliðsins Barcelona auk þess sem helsta stjarna liðsins, Leo Messi, er sérstakur góðgerðarsendiherra UNICEF. Þá hefur David Beckham verið óþreytandi við að vekja athygli á að öll getum við sameinast og bætt líf barna. 

„Það er okkur hjá UNICEF á Íslandi gleðiefni að íslenska karlalandsliðið og KSÍ leggi UNICEF lið. Tenging UNICEF og knattspyrnuheimsins er sterk og ótrúlegt hvað fótboltamenn um allan heim hafa gert til að vekja athygli á því hvernig við getum öll sameinast um að gera heiminn að betri stað fyrir börn,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. 

„Það er ómetanlegt að landsliðið hér heima veki athygli á þeirri skelfilegu neyð sem hætta er á vegna ebólufaraldursins og hversu auðvelt er að styrkja hjálparstarf UNICEF á svæðinu. Fyrir þetta erum við afar þakklát.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert