Margt í gangi í fótboltanum

Óskar Örn Hauksson er eftirsóttur. Keflavík og FH vilja fá …
Óskar Örn Hauksson er eftirsóttur. Keflavík og FH vilja fá hann og KR vill halda honum. mbl.is/Eggert

Talsverðar breytingar gætu orðið á mörgum íslensku knattspyrnuliðanna í vetur en í dag hafa verið fréttir af þó nokkrum sem hugsa sér til hreyfings eða eiga í viðræðum við önnur félög um þessar mundir.

Óskar Örn Hauksson, kantmaðurinn reyndi hjá KR, hefur rætt við Keflvíkinga en Þorsteinn Magnússon formaður þar á bæ staðfesti það við Víkurfréttir í dag. Þá hefur komið fram að Óskar sé á óskalista FH-inga og Baldur Stefánsson varaformaður knattspyrnudeildar KR sagði í Morgunblaðinu í dag að KR-ingar vildu endilega halda Óskari sem væri með í höndunum tilboð um nýjan samning.

Guðjón Árni Antoníusson, bakvörður FH-inga og leikmaður Keflavíkur til margra ára, er líka í sigtinu hjá Keflvíkingum en hann sagði við fótbolta.net í dag að hann væri í  viðræðum við FH um nýjan samning.

Hólmar Örn Rúnarsson er að óbreyttu á leið til Keflavíkur frá FH eftir þriggja ára fjarveru, eins og fram kom fyrr í dag.

Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Breiðabliks, fundar með FH-ingum í dag en visir.is skýrði frá því. Þá eru KR-ingar einnig sagðir áhugasamir um að fá Finn Orra í sínar raðir.

Grindvíkingurinn Ray Anthony Jónsson er á förum frá Keflavík eftir  tvö ár þar en hann staðfesti það við fótbolta.net í dag. Þá hættir norski varnarmaðurinn Endre Ove Brenne hjá Keflvíkingum eftir að hafa leikið með þeim í hálft annað ár.

Dean Martin, sem var spilandi aðstoðarþjálfari hjá ÍBV í sumar, 42 ára gamall, er á förum frá Eyjamönnum sem réðu Jóhannes Harðarson sem þjálfara fyrr í dag. Martin var einn þeirra sem komu til greina í starfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert