Ingvar æfir með sænsku úrvalsdeildarliði

Ingvar Jónsson hefur verið einn þriggja markvarða landsliðsins undanfarið.
Ingvar Jónsson hefur verið einn þriggja markvarða landsliðsins undanfarið. mbl.is/Eggert

Ingvar Jónsson, sem útnefndur var besti leikmaður nýafstaðins Íslandsmóts í knattspyrnu í gær, er á leiðinni til Svíþjóðar þar sem hann mun æfa með Åtvidaberg í eina viku.

Ingvar fer utan á sunnudaginn og mun ásamt því að æfa með Åtvidaberg sjá leik með liðinu gegn Malmö í lokaumferðinni laugardaginn 1. nóvember.

Þetta kemur fram á vefmiðlinum Fótbolta.net. Þar segir Ingvar, sem er einn þriggja markvarða landsliðsins, að landsliðsþjálfarar Íslands hafi lagt á það áherslu að hann héldi sér í góðu formi fyrir landsleikina við Belgíu og Tékkland um miðjan næsta mánuð.

Ingvar fór á kostum í marki Stjörnunnar í sumar og varð Íslandsmeistari með liðinu auk þess að komast í 4. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar þar sem liðið féll úr leik í einvígi við Inter Mílanó.

Åtvidaberg er í 7. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir. Hinn 38 ára gamli Henrik Gustavsson er aðalmarkvörður liðsins og hefur verið það í meira en áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert