Davíð er sá yngsti í 34 ár

Davíð Snorri Jónasson tolleraður af leikmönnum Leiknis eftir að þeir …
Davíð Snorri Jónasson tolleraður af leikmönnum Leiknis eftir að þeir tryggðu sér sigur í 1. deildinni í haust. mbl.is/Eva Björk

Davíð Snorri Jónasson verður yngsti þjálfari til að hefja tímabil í efstu deild karla í knattspyrnu hér á landi í 34 ár á næsta keppnistímabili. Davíð þjálfar lið Leiknis í Reykjavík ásamt Frey Alexanderssyni og undir þeirra stjórn unnu Breiðhyltingarnir sannfærandi sigur í 1. deildinni á nýliðnu keppnistímabili og spila í fyrsta skipti í deild þeirra bestu á árinu 2015. Þá verður Davíð Snorri orðinn 28 ára gamall en hann er fæddur 26. febrúar 1987.

Síðast gerðist það árið 1981 að þjálfari liðs í efstu deild karla frá byrjun tímabils var 28 ára gamall. Það var Ingi Björn Albertsson, sem lengi var markahæsti leikmaður allra tíma í deildinni, en hann gerðist spilandi þjálfari FH fyrir keppnistímabilið 1981.

Frá þeim tíma hafa þó tveir yngri menn tekið við liði á miðju tímabili. Þorlákur Már Árnason var 27 ára þegar hann tók við Valsliðinu á miðju sumri 1997 og Magni Fannberg var 27 ára þegar hann stýrði Grindavík í tveimur síðustu leikjum tímabilsins 2006, ásamt Milan Stefáni Jankovic.

Duncan McDowell frá Skotlandi var aðeins 25 ára gamall þegar hann tók við þjálfun ÍBV árið 1973 en hann stýrði Eyjaliðinu í tvö ár.

Hólmbert Friðjónsson stýrði Keflavík til Íslandsmeistaratitils 28 ára gamall árið 1969. En Skagamaðurinn Ríkharður Jónsson hefur þó vinninginn á alla þjálfara hvað aldur og sigra varðar. Ríkharður tók við liði ÍA 21 árs gamall, sem þjálfari og leikmaður, og vann Íslandsmeistaratitilinn í fyrstu tilraun árið 1951. Þegar hann var 28 ára gamall höfðu Skagamenn orðið fimm sinnum Íslandsmeistarar undir hans stjórn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert