Rúnar: Átti frábæran tíma hjá KR

Rúnar Kristinsson skilaði fimm stórum titlum sem þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson skilaði fimm stórum titlum sem þjálfari KR. mbl.is/Golli

Aðeins á eftir að ganga frá nokkrum lausum endum áður en Rúnar Kristinsson verður kynntur sem nýr þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström en hann hefur ákveðið að segja skilið við KR eftir að hafa stýrt liðinu frá miðju sumri 2010.

Rúnar var var um sig í samtali við mbl.is í kvöld og sagði ekkert frágengið enn varðandi það að hann yrði þjálfari Lilleström.

„Það er ekkert öruggt í þeim efnum enn. Það á eftir að ganga frá ýmsum hlutum en það er ljóst að ég verð ekki áfram með KR. KR-ingar þurfa að halda áfram með sína vinnu og ég vildi gera þeim það kleyft,“ sagði Rúnar.

„Það er mikill áhugi og ég hef svo sem alveg fengið vísbendingar um hvað koma skal en ég er ekki búinn að ganga frá neinum samningum eða skrifa undir eitt né neitt. Þetta skýrist vonandi strax í næstu viku,“ bætti hann við.

Rúnar gerði KR að Íslandsmeistara 2011 og 2013, og bikarmeistara 2011, 2012 og 2014.

„Það er gríðarlega erfitt að kveðja KR. Ég er búinn að eiga frábæran tíma þarna frá því að ég tók við sem yfirmaður knattspyrnumála 2008, og í kjölfarið sem þjálfari. Ég hef starfað með frábæru fólki og er gríðarlega stoltur af því sem við höfum náð að gera saman. Liðið hefur náð titli á hverju ári og stjórnin gert okkur það kleyft að berjast um titla á hverju ári. Ég er líka gríðarlega þakklátur fyrir þá aðstoð sem ég hef fengið frá Pétri Péturssyni og Guðmundi Hreiðarssyni sem hafa unnið með mér hérna allan tímann. Þeir eru frábærir karakterar sem eiga mikið hrós skilið,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert